Kiel varð í dag þýskur bikarmeistari í handknattleik undir stjórn Alfreðs Gíslasonar. Kiel vann öruggan sigur á Gummersbach, 30:24, í úrslitaleik í Hamborg. Þetta er þriðji titilinn sem Alfreð vinnur með Kiel á þessu keppnistímabili en liðið hefur hirt öll gullverðlaun sem í boði eru í þýsku handknattleik á þessu keppnistímabili.
Auk sigurs í bikarkeppninni hefur Kiel fyrir nokkru tryggt sér meistaratitilinn auk þess sem það vann meistarakeppnina í upphafi leiktíðar.
Eftir nauman sigur á Rhein-Neckar Löwen í undanúrslitum þá réði Kiel lögum og lofum í úrslitaleiknum við Gummersbach í dag. Liðið var þremur mörkum yfir í hálfleik, 15:12. Í síðari hálfleik keyrði Kiel upp hraðann og náði mest tíu marka forskoti, 27:17, þegar tæpar tíu mínútur voru til leiksloka.
Róbert Gunnarsson skorðai tvö mörk fyrir Gummersbach í leiknum en Momir Ilic var markahæstur með sex mörk.
Slóvenski hornamaðurinn Vid Kavticnik skoraði sex mörk fyrir Kiel. Filip Jicha gerði 5 mörk og Nikola Karabatic var með fjögur mörk.
Þrátt fyrir tapið verður Gummersbach fulltrúi Þýskalands í Evrópukeppni bikarhafa á næstu leiktíð þar sem Kiel fer í meistaradeild Evrópu sem landsmeistari.
Þetta var í sjötta sinn sem Kiel vinnur þýska bikarinn og um leið þriðja árið í röð. Ekkert félag hefur orftar unnið þýsku bikarkeppninar. Gummersbach hefur unnið keppnina fimm sinnum, síðast 1985.