Metsigur hjá Þjóðverjum

Heiner Brand, landsliðsþjálfari Þjóðverja í handknattleik.
Heiner Brand, landsliðsþjálfari Þjóðverja í handknattleik. AP

Þjóðverjar unnu Búlgaríu, 54:29, á útivelli í undankeppni Evrópumótsins í handknattleik karla. Þetta er stærsti sigur þýska landsliðsins á útivelli síðan 1969 að það lagði Frakka með 20 marka mun, 33:13. Christian Schöne var markahæstur í þýska liðinu með 15 mörk en það hefur svo gott sem tryggt sér sæti í lokakeppni Evrópumótsins sem haldið verður í Austurríki 19. - 31. janúar á næsta ári. 

Leikurinn fór fram í Samokov í Búlgaríu. Staðan í hálfleik var 25:9, Þýskalandi í vil.

Þjóðverjar eru efstir í 5. riðli með fullt hús stiga að loknum fimm leikjum. Hvít-Rússar og Slóvenar hafa sex stig eftir fjóra leiki en þjóðirnar mætast  Ljubljana í kvöld.

Frændur okkar, Finnar, fengu slæman skell í gærkvöldi þegar Króatar sóttu þá heim í 4. riðli undankeppni EM. Króatar unnu 20 marka sigur, 34:14, að viðstöddum 1.600 áhorfendum í  Vantaa.

Finnar reka lestina í 4. riðli án stiga eftir sjö leiki. Króatar eru efstir með 8 stig eftir fimm leiki. Ungverjar hafa einnig átta stig að loknum fjórum leikjum og Grikkir eru með sex stig.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert