Leikur Íslands og Noregs í undankeppni EM í handknattleik hófst í Laugardalshöll klukkan 16:00. Leikurinn var mikilvægur fyrir báðar þjóðir en tvö lið fara upp úr riðlinum í úrslitakeppnina í Austurríki. Íslendingar og Norðmenn eru því enn jafnir í efsta sætum riðilsins og Íslendingar þurfa því eitt stig í þeim tveimur leikjum sem eftur eru gegn Makedóníu og Eistlandi. Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.
LEIK LOKIÐ: Leiknum lauk með jafntefli 34:34 en Norðmenn jöfnuðu með glæsilegu marki úr vinstra horninu þegar örfáar sekúndur voru eftir.
58. mín: 34:32. Alexander hjó á hnútinn og skoraði fyrsta mark Íslands í langan tíma og Sigurbergur bætti við marki.
57. mín: 32:32. Ingimundur var að fá sína þriðju brottvísun og þar af leiðandi rautt spjald. Norðmenn misstu einnig mann af velli og því er jafnt í liðum.
55. mín: 32:31. Forysta Íslands er nánast að engu orðin og enn fimm mínútur eftir af leiknum. Guðmundur þjálfari sér þann kost vænstan að taka leikhlé og skipuleggja leik liðsins.
54. mín: 32:30 Norðmenn hafa ekki lagt árar í bát og Mamelund er kominn með 11 mörk hjá þeim. Tíminn fer þó að verða naumur hjá þeim og nú er hvert mark afar dýrmætt hjá Íslendingum.
50. mín: 30:25. Vænkast nú hagur Íslands eftir frábæran kafla þar sem íslensku leikmennirnir breyttu stöðunni úr 26:25 í 30:25.
45. mín: 26:24. Leikurinn er í járnum sem stendur. Norðmenn hafa minnkað muninn í tvö mörk og virðast vera að ganga á lagið.
40. mín: 24:20. Íslendingum hefur tekist enn sem komið er að halda fjögurra marka forskoti sínu. Alexander hefur verið drjúgur í síðari hálfleik og hefur skorað sjö mörk alls í leiknum.
35. mín: 20:16. Íslendingar byrja síðari hálfleikinn ágætlega en eru þó ekki búnir að hrista Norðmennina af sér. Sigurbergur Sveinsson er orðinn markahæstur en hann er kominn með fimm mörk.
HÁLFLEIKUR: Ísland hefur yfir að loknum fyrri hálfleik 17:13. Fyrirliðinn Guðjón Valur tók góða rispu undir lok fyrri hálfleiks og er kominn með þrjú mörk. Íslenska liðið keyrði hratt á Norðmennina seinni hluta fyrri hálfleiks enda varnarleikurinn ágætur hjá Norðmönnum þegar þeir ná að stilla upp í vörnina. Þetta hefur virkað vel og Ísland náði fimm marka forskoti 16:11. Heiðmar er markahæstur með 4 mörk og Björgvin hefur varið 12 skot í markinu.
25. mín: 12:9. Útlitið er ágætt hjá íslenska liðinu. Guðjón Valur var að skora sitt fyrsta mark í leiknum og það kom úr vítakasti. Björgvin er í stuði og er búinn að verja 11 skot í markinu.
23. mín: 10:8. Ingimundur var rekinn út af í annað skipti og þarf að passa sig. Dómarar leiksins hafa lagt einkennilega línu og Íslendingar gætu lent í vandræðum með brottvísanna.
20. mín: 8:7. Íslendingar hafa enn frumkvæðið. Ingimundur fékk brottvísun fyrir litlar sakir og Íslendingar hafa því verið með menn í kælingu í 6 mínútur af fyrstu 20.
17. mín: 7:5. Heiðmar hefur farið á kostum og er kominn með fjögur mörk. Björgvin byrjar ágætlega í markinu og frammistaða hans lofar góðu. Norðmenn spila sterkan varnarleik þegar þeir ná að stilla upp en eru fremur stirðir í sókninni.
15. mín: 5:4. Íslendingar eru með frumkvæðið. Heiðmar Felixson hefur komið ferskur inn af bekknum og er búinn að skora tvívegis. Snorri Guðjónsson er kominn inn á fyrir Ragnar sem fékk högg á andlitið.
10. mín: 2:1. Íslendingar hafa fengið tvær brottvísanir nú þegar í leiknum og hefur það riðlað leik liðsins. Sverre og Alexander hafa verið reknir af velli og einn Norðmaður. Heiðmar Felixson fær að spreyta sig í fyrsta skipti í áraraðir.
5.mín: 2:1 Norðmenn komnir á blað en Sigurbergur kom Íslandi í 2:0 með þrumuskoti.
1.mín: 1:0 Alexander skoraði í fyrstu sókn leiksins. Ingimundur Ingimundarson og Sverre Jakobsen koma inn í vörnina í stað Ragnars og Sigurbergs.
Byrjunarlið Íslands:
Björgvin Páll Gústavsson - Guðjón Valur Sigurðsson, Sigurbergur Sveinsson, Ragnar Óskarsson, Alexander Petersson, Þórir Ólafsson, Róbert Gunnarsson.
Snorri Guðjónsson leikstjórnandi íslenska liðsins er leikfær og en hann hefur glímt við erfið hnémeiðsli í vetur. Eins og fram hefur komið eru talsverð forföll í íslenska liðinu sem saknar Ólafs Stefánssonar, Sigfúsar Sigurðssonar, Loga Geirssonar auk þess sem Snorri, Alexander Petterson og Aron Pálmarsson eru að stíga upp úr meiðslum.