„ÞAÐ er alveg óþarfi að gera einhverja hetjudáð úr þessu hjá mér þótt ég hafi tekið þátt í leiknum. Mér leið vel og mig langaði til að spila. Það kemur síðan í ljós á morgun hvort ég finn eitthvað til í hnénu,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson, landsliðsmaður í handknattleik, eftir jafnteflið við Norðmenn í gær, 34:34, í undankeppni Evrópumeistaramótsins í Laugardalshöll.
Snorri Steinn hefur verið meira og minna frá keppni frá því að íslenska landsliðið vann til silfurverðlauna á Ólympíuleikunum í Peking í ágúst. Síðan hefur hann gengist undir tvær erfiðar aðgerðir á hné og stranga endurhæfingu. Síðla vetrar var jafnvel óttast að ferill þessa snjalla leikstjórnanda væri í hættu vegna meiðslanna. Snorri hefur æft af fítonskrafti en vantar leikæfinguna. Það var hins vegar ekki að sjá í gær þegar hann svaraði kalli landsliðsþjálfarans eftir að ljóst að var að Aron Pálmarsson var meiddur og gat ekki tekið þátt í leiknum við Norðmenn.
„Endurhæfingin hefur gengið vel. Eftir að hafa fengið grænt ljós frá lækni og sjúkraþjálfara þá tók ég þá ákvörðun að gefa kost á mér í leikinn. Mér fannst það ganga vonum framar í leiknum en svo sannarlega átti ég ekki von á því að leika í 50 mínútur eins og raun varð á,“ sagði Snorri Steinn.
„Það voru vonbrigði að okkur skyldi ekki takast að halda út og vinna leikinn því staðan var orðin góð og segja má að við höfum verið komnir með unninn leik í hendurnar. Segja má að við höfum kastað sigrinum frá okkur, ekki hvað síst í varnarleiknum þar sem ekkert gekk að halda aftur af [Erlend] Mamelund. Hann fékk að skjóta á mark okkar hvað eftir annað án þess að komið væri við hann.
Nú kemur ekkert annað til greina en að vinna leikinn við Makedóníu í Höllinni á miðvikudaginn. Þá leikum við á þjóðhátíðardaginn okkar og ég skora á Íslendinga að troðfylla Höllina þá og aðstoða okkur við að vinna Makedóníumenn. Stuðningurinn í dag var frábær en ég er viss um að hann verður ennþá betri 17. júní,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson.
Ítarleg umfjöllun er um leikinn við Norðmenn í Morgunblaðinu í dag.