„Það gefur okkur aukakraft að leika fyrir framan fulla Höllina á þjóðhátíðardaginn,” segir Alexander Petersson, landsliðsmaður í handknattleik spurður um leikinn við Makedóníu í undankeppni EM í handknattleik sem fram fer í Laugardalshöll í dag og hefst kl. 17.
Alexander lék afar vel gegn Belgum í síðustu viku og á móti Noregi á sunnudaginn en það voru hans fyrstu landsleikir frá því á Ólympíuleikunum í Peking fyrir 10 mánuðum en þar meiddist hann á hægri öxl. Alexander var hálft ár frá keppni en hefur nú náð sér vel á strik og er staðráðinn í vinna leikinn í dag ásamt samherjum sínum í íslenska landsliðinu.
“Ég hlakka til leiksins, við ætlum okkur að vinna,” sagði Alexander eftir æfingu íslenska landsliðsins síðdegis í gær.