Íslenska landsliðið í handknattleik karla tryggði sér í dag keppnisrétt á Evrópumeistaramótið sem haldið verður í Austurríki í janúar á næsta ári. Það gerði liðið með því að vinna átta marka sigur á Makedóníu, 34:26, að viðstöddum tæplega 3.000 áhorfendum sem troðfylltu Laugardalshöll.
Íslenska landsliðið hafði frumkvæði leiknum frá upphafi til enda. Það var með fjögurra marka forskot í hálfleik, 17:13. Það var síðan í síðari hálfleik sem það tók öll völd á leikvellinum og hreinlega yfirspilaði Makedóníumenn á löngum köflum. Forskotið var mest 11 mörk, 30:19. Sigur liðsins var glæsilegur og spilamennska þess á löngum köflum alveg hreint framúrskarandi góð.
Alexander Petersson skoraði 10 mörk og var markahæstur. Þetta er annar leikurinn í röð þar sem hann skorar tíu mörk fyrir landsliðið. Guðjón Valur Sigurðsson skoraði 6 mörk, Róbert Gunnarsson 5, Þórir Ólafsson 4, Sigurbergur Sveinsson 3, Heiðmar Felixson 2, Vignir Svavarsson, Ingimundur Ingimundarson, Ragnar Óskarsson og Snorri Steinn Guðjónsson skoruðu eitt mark hver.
Björgvin Páll Gústavsson stóð í marki Íslands allan leikinn og varði yfir 20 skot.