Einar Þorvarðarson, framkvæmdastjóri Handknattleikssambands Íslands, sagði við mbl.is eftir dráttinn í riðla í Evrópukeppni karla í dag að Ísland væri í skemmtilegum riðli í úrslitakeppninni í Austurríki.
Íslenska liðið dróst þar með Dönum, Austurríkismönnum og Serbum en sem kunnugt er þá þjálfar Dagur Sigurðsson, fyrrum landsliðsfyrirliði Íslands, austurríska liðið.
"Það er alltaf gaman að mæta Dönum og stemmning í kringum það. Austurríki er á heimavelli og getur verið snúinn andstæðingur með áhorfendur með sér, og Serbarnir eru líklega erfiðasta þjóðin sem við gátum fengið úr fjórða styrkleikaflokknum. Þetta verður hörkuriðill en skemmtilegur," sagði Einar Þorvarðarson.