„Bjartsýnn á að strákarnir nái sínum besta leik“

Aron Pálmarsson er lykilmaður í u19 ára landsliði Íslands.
Aron Pálmarsson er lykilmaður í u19 ára landsliði Íslands. Brynjar Gauti

„Það eru allir frískir og klárir í slaginn gegn Túnis. Við þurfum að leika mjög vel í kvöld ef við ætlum okkur að komast í úrslitaleikinn og ég er bjartsýnn á að strákarnir nái sínum besta leik,“  sagði Einar Guðmundsson þjálfari U19 ára landsliðs karla í handbolta í dag í samtali við mbl.is. Ísland og Túnis leika í kvöld kl. 20.00 í undanúrslitum á heimsmeistaramótinu sem fram fer í Túnis og er  mikill áhugi fyrir leiknum.

„Leikurinn verður í beinni útsendingu í sjónvarpi og það er uppselt á leikinn. Um 3000 áhorfendur verða á þeirra bandi og ég hlakka bara til að glíma við þetta verkefni með strákunum,“ bætti Einar við. Króatía og Svíþjóð eigast við í hinum undanúrslitaleiknum en úrslitaleikurinn fer fram á föstudag.

„Túnis leikur hefðbundna „franska vörn“. Þeir eru með einn varnarmann fyrir framan 5 manna varnarlínu. Sá sem er þar fremstur er aðalmaðurinn í þeirra liði. Vinstri hornamaður sem vill gera allt. Þeir eru samt sem áður betri en Noregur sem við unnum í miklum markaleik í 8-liða úrslitum. Við munum leika 6:0 vörn gegn þeim í kvöld og markmiðið er að keyra upp hraðann eins og við höfum gert allt mótið,“ sagði Einar. 


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert