Íslenska landsliðið í handknattleik karla skipað leikmönnum yngri en 19 ára fékk silfurverðlaun á heimsmeistaramótinu sem lauk í Túnis í gærkvöldi. Ísland lék til úrslita gegn Króatíu sem reyndust of stór biti fyrir íslenska liðið að kyngja. Króatar sigruðu 40:35 en þeir tóku frumkvæðið snemma í leiknum og voru yfir í hálfleik 19:15. Ólafur Guðmundsson var markahæstur í íslenska liðinu í úrslitaleiknum með 8 mörk.
Ólafur var jafnframt markahæstur Íslendinganna á HM með 48 mörk og sá þriðji markahæsti í mótinu. Ólafur var verðlaunaður fyrir frammistöðu sína að mótinu loknu þegar hann var valinn í úrvalslið mótsins ásamt leikstjórnandanum Aroni Pálmarssyni: ,,Það var markmiðið hjá mér að komast í lið mótsins. Ég stefni hátt og þetta var hluti af því. Ég er náttúrlega hrikalega ánægður og þetta er flottur árangur. Ég get ekki sagt að þetta hafi komið mér á óvart en mikill heiður samt sem áður,“ sagði Ólafur þegar Morgunblaðið náði tali af honum í gærkvöldi. Frammistaða Ólafs er enn athyglisverðari fyrir þær sakir að hann varð fyrir meiðslum á síðustu leiktíð og var frá í hálft ár:
Ítarleg umfjöllun um leikinn er í Morgunblaðinu í dag.