Fyrsti stórleikur Arons Pálmarssonar með þýska meistaraliðinu Kiel verður í kvöld þegar liðið mætir HSV Hamburg í meistarakeppni þýska handknattleikssambandsins. Kiel vann bæði deildina og bikarkeppnina á síðustu leiktíð en HSV Hamborg varð í öðru sæti deildarinnar. Sömu lið mættust í meistarakeppninni fyrir ári síðan og þá vann Kiel öruggan sigur.
Bæði lið hafa fengið til sín sterka leikmenn í sumar og þurft í sumum tilfellum að reiða fram talsvert fé til þess að klófesta þá. M.a. er talið er að Kiel hafi greitt 1,3 milljónir evra fyrir Frakkann Daniel Narciesse í síðustu viku.
Aron gekk formlega til liðs við Kiel í sumar frá FH. Hann hefur fengið mörg tækifæri í æfingaleikjum liðsins síðustu vikurnar, m.a. um síðustu helgi þegar Kiel lagði Montpellier og Guif á æfingamóti á heimavelli.
Sem kunnugt er þá er Alfreð Gíslason þjálfari Kiel.
Keppni í þýsku 1. deildinni hefst annað kvöld með viðureign Flensburg og Göppingen í Campushalle í Flensburg. Titivörn Kiel byrjar á laugardaginn. Þá sækir liðið Melsungen heim.