Handknattleiksmaðurinn Snorri Steinn Guðjónsson hefur verið seldur frá danska liðinu GOG til þýska stórliðsins Rhein-Neckar Löwen. Þetta hefur fréttavefur Morgunblaðsins samkvæmt heimildum. Félögin hafa náð samkomulagi um kaupverðið og mun Snorri skrifa undir samning við þýska liðið síðar í dag.
Reiknað er með að Snorri Steinn verði í liði Rhein-Neckar Löwen sem mætir TuS N-Lübbecke í fyrstu umferð þýsku 1. deildarinnar á morgun.
Snorri Steinn verður þar með þriðji íslenski handknattleiksmaðurinn í herbúðum Rhein-Neckar Löwen. Fyrir eru hjá félaginu Guðjón Valur Sigurðsson og Ólafur Stefánsson.
Leikstjórnandi Rhein-Neckar Löwen, Pólverjinn Grzegorz Tkaczyk, meiddist í illa í hné nýverið og ljóst að hann verður ekki með liðinu fyrr en í fyrsta lagi í febrúar. Þar af leiðandi var forráðamönnum liðsins nauðugur sá kostur að leita eftir kaupum á nýjum leikstjórnanda í snatri.
Samningur Snorra Steins við Rhein-Neckar Löwen nær aðeins til loka þeirra leiktíðar sem nú er að hefjast, þ.e. til loka maí á næsta ári.