Erfiður leikur en sætur sigur

Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari Vals, baðar úr höndunum.
Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari Vals, baðar úr höndunum. Árni Sæberg

„Þetta var mjög erfiður leikur og því er ég mjög ánægður með hafa krækt í þessu tvö stig," sagði Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari Vals, eftir að lið hans vann Akureyri, 23:19, í fyrstu umferð N1-deildar karla í handknattleik í Vodafone-höllinni í kvöld.

„Mér fannst Akureyrarliðið vera með leikinn í hendi sér um tíma. En eftir að við féllum niður í 6/0 vörn þá náðum við betur að halda aftur af Akureyrarliðinu og síðan hjálpaði Hlynur [Morthens] okkur geysilega vel í markinu. Sóknarleikur okkar var hins vegar mjög erfiður allan tímann og margir leikmenn sem léku alls ekki vel. Fyrir vikið er þeim mun sætara að vinna leikinn," sagði Óskar.

Fimmtán mínútum fyrir leikslok hafði Akureyri tveggja marka forskot, 17:15. „Þá var útlitið alls ekki gott hjá okkur en þetta hafðist á síðustu tíu  mínútunum," sagði Óskar og bætti við að þessi vika hafi verið Valsmönnum erfið. Elvar Friðriksson hafi meiðst á æfingu á þriðjudag, útlit er fyrir að Sigurður Eggertsson verði að fara í aðgerð vegna liðþófa í hné og síðan hafi veikindi verið að hrjá leikmenn. „Í ljósi þessa alls er sigurinn þeim mun sætari," sagði Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari Vals.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert