Aron Kristjánsson þjálfari Hauka var að vonum ánægður með frammistöðu sinna manna gegn pólska liðinu Wisla á Ásvöllum í dag. Haukar eru komnir áfram í EHF keppninni eftir stórsigur 29:21 en Wisla vann fyrri leikinn ytra með tveggja marka mun.
„Við bjuggum okkur undir að mæta svolítið öðru liði en þeir stilltu upp í dag því þeir eru í miklum vandræðum með meiðsli. Allar skytturnar þeirra vinstra megin eru meiddar og við mættum því leikmönnum sem við höfum ekki séð áður. Meiðsli lykilmanna var mikil blóðtaka fyrir þá en fyrir okkur þá snérist þetta um átta okkur á nýjum leikmönnum og spila af krafti í vörninni. Það verður ekki tekið af okkur að við vorum að spila virkilega flottan handbolta í dag,“ sagði Aron í samtali við mbl.is að leiknum loknum.
Aron sagðist hafa fundið hvernig pressan byggðist upp hjá Wisla eftir nauman sigur í fyrri leiknum en Wisla er með nokkra kunna leikmenn. Þrír þeirra þekktustu eru, Daninn Lars Möller Madsen sem Aron þjálfari hjá Skjern og skaut okkur Íslendinga út úr HM i Þýskalandi fyrir nokkrum árum. Norski leikstjórnandinn Vegard Samdahl sem lék með SK Árhus í fyrra og fyrrum línumaður Minden, Dimitri Kusilev frá Rússlandi. Wisla saknaði allra þessara leikmanna í dag en Madsen og Samdahl voru með í fyrri leiknum:
„Mér fannst eins og þeir væru að fara á taugum strax eftir leikinn úti. Þeir voru strax byrjaðir að gagnrýna þjálfarann og hann varð fyrir vikið mjög stressaður. Það var einhvern veginn eins og þeir trúðu ekki á þetta og þeir voru fljótir að brotna í dag,“ sagði Aron ennfremur.
Fjallað er um leikinn í átta síðna íþróttablaði Morgunblaðsins á mánudaginn.