Grótta skellti FH í Kaplakrika

Jón Heiðar Gunnarsson FH-ingur skýtur að marki Gróttu en Anton …
Jón Heiðar Gunnarsson FH-ingur skýtur að marki Gróttu en Anton Rúnarsson fylgist með honum. mbl.is/Kristinn

Grótta vann góðan sigur á FH, 38:32, í Kaplakrika í kvöld í N1-deild karla en þetta er annar sigur nýliða Gróttunnar í deildinni í vetur og sannarlega verðskuldaður. Jafnt var í hálfleik, 16:16. FH-liðið náði sér aldrei á strik að þessu sinni en Gróttumenn voru baráttuglaðir og nýttu sér alla veikleika FH-liðsins til fullnustu.

Eftir að hafa verið yfirleitt skrefi á undan í fyrri hálfleik þá tóku leikmenn Gróttu þriggja til fjögurra marka forystu snemma í síðari hálfeik, forystu sem FH-liðið megnaði aldrei að minnka að neinu marki enda var varnarleikur liðsins nánast eins og til málamynda allan leikinn

Mörk FH: Bjarni Fritzson 7, Benedikt Kristinsson 5, Ólafur Gústafsson 4, Ásbjörn Friðriksson 3, Jón Heiðar Gunnarsson 3, Sigurgeir Árni Ægisson 3, Örn Ingi Bjarkason 3, Ólafur Guðmundsson 2, Ari Þorgeirsson 1, Guðmundur Petersen 1.
Varin skot: Pálmar Pétursson 11 (þaraf 3 til mótherja). Daníel Andrésson 5 (þaraf 1 til mótherja).
Utan vallar: 12 mínútur.

Mörk Gróttu: Finnur Ingi Stefánsson 8, Anton Rúnarsson 7, Jón Karl Björnsson 7/4, Atli Rúnar Steinþórsson 6, Hjalti Þór Pálmason 4, Halldór Ingólfsson 3, Arnar Freyr Theódórsson 2, Júlíus Þórir Stefánsson 1.
Varin skot: Gísli Rúnar Guðmundsson 11/1 (þar af 4/1 mótherja). Einar Rafn Ingimarsson 1, sem fór til mótherja.
Utan vallar: 6 mínútur.

49. Gróttumenn gefa ekkert eftir gegn FH-ingum sem eru ekki nema skugginn af sjálfum sér. Staðan 31:26, fyrir Gróttu, óvænt en verðskuldað.

37. FH-ingar taka leikhlé enda þremur mörkum undir. Þeir hafa byrjað síðari hálfleik illa. Gróttumenn leika við hvern sinn fingur, ekki síst Halldór Ingólfsson, elsti maður vallarins, rúmlega fertugur. Staðan, 22:19, Gróttu í vil.

30. Flautað hefur verið til loka fyrri hálfleiks. Hafnfirðingar geta þakkað Pálmari Péturssyni, markverði, það að vera ekki undir að loknum fyrri hálfleik. Hann hefur varið 11 skot. Þeir hafa leikið hreint afleitlega lengst af og engu líkara en þeir hafi talið sig geta unnið auðveldan sigur. Gróttuliðið er svo sannarlega sýnd veiði en ekki gefinn, að minnsta kosti að þessu sinni. Leikmenn berjast fyrir sínu, leggja sig fram og hefðu verðskuldað að vera með forskot í hálfleik. Staðan er jöfn, 16:16.
Bjarni Fritzson hefur skorað 5 mörk fyrir FH og Benedikt Kristinsson þrjú.  Anton Rúnarsson er markahæstur hjá Gróttu með fimm mörk og Jón Karl Björnsson og Atli Rúnar Steinþórsson hafa skorað fjögur mörk hvor. 

20. FH-liðið hefur náð forsytu  í leiknum og má það helst þakka aðeins bættum varnarleik, þótt ekki geti hann talist góður. Sóknarleikur FH-inga er hinsvegar ekki burðugur og ef ekki væri fyrir fáein hraðaupphlaup þá væri liðið undir. Gróttuliðið berst grimmilega og leikur á stundum af þolinmæði í sókn. FH-ingar verða heldur betur að taka sig saman í andlitinu ef þeir ætla ekki að verða í basli með að tryggja sér stig úr þessum leik.

10. FH-ingar hafa byrjað leikinn illa, verið kæruleysislegir í sóknarleiknum og slakir í vörninni. Gróttumenn eru hinsvegar í baráttuhug og hafa haft eins til tveggja marka forskot allt fram að þessu að FH lánaðist loks að jafna metin, 6:6.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert