Grótta - Stjarnan, 25:24, leik lokið

Það er stemmning á heimaleikjum Gróttu á Seltjarnarnesi.
Það er stemmning á heimaleikjum Gróttu á Seltjarnarnesi. mbl.is/Ómar

Grótta sigraði Stjörnuna, 25:24, í úrvalsdeild karla í handknattleik, N1-deildinni, á Seltjarnarnesi í kvöld. Nýliðarnir af Nesinu unnu þar með sinn þriðja leik í deildinni í vetur og skildu Garðbæinga eftir á botni deildarinnar en þeir eru aðeins með 2 stig eftir 7 leiki.

Grótta var yfir í hálfleik, 12:9, og náði sjö marka forskoti í seinni hálfleiknum en litlu munaði að Stjörnunni tækist að jafna metin undir lokin.

Finnur Ingi Stefánsson skoraði 6 mörk fyrir Gróttu, Anton Rúnarsson, Atli Rúnar Steinþórsson og Jón Karl Björnsson 5 mörk hver.

Þórólfur Nielsen skoraði 8 mörk fyrir Stjörnuna, Kristján Svan Kristjánsson og Eyþór Magnússon 3 hvor.

Nánar verður fjallað um leikinn í íþróttablaði Morgunblaðsins í fyrramálið. Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is og leikurinn þróaðist svona:

60. Grótta sigrar naumlega, 25:24, en Stjörnunni tókst ekki að jafna á lokasprettinum þrátt fyrir að hafa tvívegis minnkað muninn í eitt mark.

58. Grótta heldur enn naumri forystu en staðan er 24:23 og tvær mínútur til leiksloka.

52. Grótta er enn yfir, 22:19, en Stjarnan komst inní leikinn með því að skora fjögur mörk í röð.

45. Grótta er yfir 21:15, en Stjörnumenn eru alls ekki búnir að gefast upp. Finnur Ingi Stefánsson, Atli Rúnar Steinþórsson og Anton Rúnarsson hafa gert 5 mörk hver fyrir Gróttu en Þórólfur Nielsen 6 fyrir Stjörnuna. Roland Valur Eradze markvörður settist á bekkinn snemma í seinni hálfleik en hann náði aðeins að verja 4 skot Gróttumanna í fyrri hálfleik.

39. Grótta er að stinga Stjörnumenn af og er komin í 18:11 eftir fína byrjun á seinni hálfleiknum. Patrekur Jóhannesson þjálfari Stjörnunnar  tekur nú leikhlé til að reyna að snúa blaðinu við.

30. Flautað til hálfleiks og Grótta er með forystu, 12:9. Gróttumenn hafa verið betri aðilinn en ekki náð að hrista Stjörnumenn alveg af sér. Finnur Ingi Stefánsson og Arnar Freyr Theódórsson hafa skoraði 3 mörk hvor fyrir Gróttu og Þórólfur Nielsen 4 fyrir Stjörnuna.

26. Grótta er yfir, 10:7, eftir að hafa komist fjórum mörkum yfir, 9:5.

21. Grótta hefur gert tvö síðustu mörkin og er komin í 7:5. Finnur Ingi Stefánsson og Anton Rúnarsson hafa gert 2 mörk hvor fyrir Gróttu en Þórólfur Nielsen 2 fyrir Stjörnuna.

15. Grótta er yfir, 5:4, í leik sem einkennist af betri varnarleik en sóknarleik, enn sem komið er.

6. Grótta er komin í 3:2 eftir að Stjörnumenn skoruðu tvö fyrstu mörkin í leiknum.

Grótta er í 6. sæti deildarinnar með 4 stig en Stjarnan er í 7. sætinu með 2 stig. Bæði lið leika sinn sjöunda leik í kvöld.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert