Aron: Þurftum allt í einu að sækja stigið

Aron Kristjánsson, þjálfari Hauka.
Aron Kristjánsson, þjálfari Hauka. mbl.is/hag

Aron Kristjánsson þjálfari Íslandsmeistara Hauka var sáttur við að ná stigi á Hlíðarenda í dag þegar Haukar heimsóttu Val í N1 deild karla í handknattleik.

„Við erum auðvitað gríðarlega ánægðir með að taka þetta stig hérna í dag. Við vorum ekki að spila nægilega vel, sérstaklega í sókninni. Skutum illa á markmanninn og leikmenn hlupu rangar hlaupaleiðir í leikkerfunum, eitthvað sem þeir höfðu gert rétt á æfingum. Skilaboðin bárust einhvern veginn ekki rétt á milli manna. Klaufagangur gerði það að verkum að við lentum undir í þessum leik. Það var lítil skorað í leiknum og við þurfum að berjast við að vinna upp 4 marka forskot í síðari hálfleik. Þar af leiðandi er ég ánægður með að ná þessu stigi,“ sagði Aron í samtali við mbl.is.

Haukar unnu lokakafla leiksins 6:2: „Varnarleikurinn hélt áfram að vera góður. Við urðum grimmari því við þurftum allt í einu að sækja stigið í staðinn fyrir að verja stigið. Auk þess fóru menn að hlaupa réttu hlaupaleiðirnar í leikkerfunum. Einnig var gott að eiga leikkerfið inni undir lok leiksins. Þá gátum við tekið markvörðinn út af og hent inn aukamanni í sóknina. Það heppnaðist mjög vel,“ sagði Aron ennfremur.

Ítarlega er fjallað um leikinn í átta síðna íþróttablaði Morgunblaðsins í fyrramálið. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert