Arnar Birkir Hálfdánsson, leikmaður Fram, gerði sig sekan um fólskulegt brot í leik liðsins við Gróttu í úrvalsdeild karla, N1-deildinni, á Seltjarnarnesi í gærkvöld. Dómarar leiksins sáu þegar hann beitti svokölluðu „júgóslavnesku bragði" á Jón Karl Björnsson og ráku Arnar réttilega af velli en um stórhættulegt athæfi er að ræða.
Eyjólfur Garðarsson, „hirðljósmyndari" Gróttu, náði magnaðri myndaröð af atvikinu og þær má sjá hér.
Brotið er kennt við Júgóslava því leikmenn landsliðs þeirra beittu því á níunda áratugnum. Það er framkvæmt á lúmskan hátt, gripið í fót hornamanns þegar hann stekkur inní vítateiginn, og erfitt að sjá hvað gerist.
Það var upplýst af árvökulum ljósmyndara dagblaðsins Þjóðviljans, Einari Ólasyni, en hann náði þá myndum í landsleik Íslands og Júgóslavíu í Laugardalshöll árið 1987 sem vöktu gífurlega athygli víða í handknattleiksheiminum.