Nágrannaslagur FH og Hauka í 8 liða úrslitum í Eimskipsbikarnum í handknattleik karla hófst í Kaplakrika klukkan 16:00. Leikurinn var æsispennandi og dramatískur í meira lagi. Eftir tvær framlengingar og 80 mínútna leik tókst Haukum að knýja fram sigur 38:37 og eru komnir í undanúrslit keppninnar. Fylgst var með gangi hjá mér á mbl.is.
80. mín: LEIK LOKIÐ: Haukar sigruðu 37:38. Þeir áttu örlítið meira eftir á tanknum á síðustu 2 mínútunum. Freyr Brynjarsson tryggði sigurinn með marki úr vinstra horninu þegar um 20 sekúndur voru eftir og kom Haukum í 38:36.
78. mín: Staðan er 36:36 og Haukar með boltann þegar rúmar 2 mínútur eru eftir. Bjarni Fritz var að skora glæsilegt mark úr mjög þröngu færi en áður hafði Freyr komið Haukum yfir með marki úr hraðaupphlaupi.
75. mín: Staðan er 34:34 að loknum fyrri hálfleik í seinni framlengingu. Allt útlit fyrir áframhaldandi spennu í þessum Hafnafjarðarslag.
70. mín: Staðan er 33:33 að lokinni framlengingu og því þarf aðra framlengingu til þess að fá fram úrslit. Takist það ekki mun gullmark skera úr um hvort liðið kemst áfram í keppninni. Bjarni Fritzson skoraði jöfnunarmark FH úr vítakasti þegar um 40 sekúndur voru eftir af framlengingunni.
68. mín: Staðan er 32:33. Björgvin var að kom Haukum yfir í fyrsta skipti síðan í fyrri hálfleik venjulegs leiktíma.
65. mín: Staðan er 31:31 að loknum fyrri hálfleik framlengingarinnar. Sigurbergur var að skora ótrúlegt mark beint úr aukakasti. Ásbjörn Friðriks hefur dregið vagninn hjá FH og hefur skorað bæði mörkin í framlengingunni og 8 mörk alls.
60. mín: Staðan er 29:29 að loknum venjulegum leiktíma. Ólafi Guðmundssyni tókst ekki að ná almennilegu skoti á markið í síðustu tilraun FH. Nú verður framlengt í 2x5 mínútur þar sem um bikarkeppni er að ræða.
60. mín: Staðan er 29:29. Einar Örn Jónsson jafnaði fyrir Hauka úr hægra horninu þegar innan við 10 sek voru eftir. Einar þjálfari FH tekur leikhlé þegar 4 sek eru eftir og Haukar taka miðju.
60. mín: Staðan er 29:28 fyrir FH. Benedikt Kristinsson var að skora úr þröngu færi í vinstra horninu fyrir FH. Haukar með boltann þegar um hálf mínúta er eftir. Aron þjálfari Hauka tekur leikhlé.
58. mín: Staðan er 28:28. Guðmundur Árni Ólafsson var að jafna fyrir Hauka úr vítakasti og FH missti boltann í kjölfarið.
55. mín: Staðan er 28:27 fyrir FH. Haukum hefur tekist að minnka muninn tvívegis niður í eitt mark, 27:26 og nú 28:27. Æsispennandi lokamínútur að fara í hönd.
50. mín: Staðan er 26:23 fyrir FH. Nú þurfa Íslandsmeistararnir að sýna hvað í þeim býr, annars eru þeir á leið út úr bikarkeppninni. Þeir voru tveimur leikmönnum fleiri um tíma en unnu þann kafla aðeins 1:0.
45. mín: Staðan er 24:22 fyrir FH. Haukum tókst að jafna leikinn 22:22 og fengu eina sókn þar sem þeir gátu komist yfir. Það tókst ekki og FH-ingar hafa svarað með tveimur mörkum, auk þess sem Haukar eru manni færri í augnablikinu.
40. mín: Staðan er 22:20 fyrir FH. Haukar skoruðu þrjú mörk í röð og minnkuðu muninn í 21:19. Björgvin Hólmgeirsson hefur verið drjúgur og er kominn með 5 mörk.
35. mín: Staðan er 21:16 fyrir FH. Rétt eins og á upphafsmínútum leiksins þá er kraftur í FH-ingum í upphafi síðari hálfleiks. Aron Kristjánsson þjálfari Hauka er brjálaður yfir varnarleik sinna manna. Birkir Ívar Guðmundsson hefur varið frá FH-ingum í síðustu tveimur sóknum þeirra en FH-ingar hafa náð fráköstunum í bæði skiptin og skorað.
30. mín: Staðan er 18:15 fyrir FH að loknum fyrri hálfleik. Á lokamínútum fyrri hálfleiks bar það helst til tíðinda að Ólafur Gústafsson FH-ingur fékk rauða spjaldið fyrir brot á Elíasi Má Halldórssyni. Dómarar leiksins, Gísli Jóhannsson og Hafsteinn Ingibergsson, litu þannig á að Ólafur hafi kýlt Elías sem lá óvígur eftir. Ólafur lék mjög vel bæði í vörn og sókn á meðan hans naut við og skoraði 3 mörk. Alvarlegt mál fyrir FH-inga.
24. mín: Staðan er 14:11 fyrir FH. Haukar komust 11:10 yfir en FH-ingar hafa svarað með 4 mörkum í röð. BjarniFritzson og Ásbjörn Friðriksson eru að leika mjög vel hjá FH. Bæði lið hafa sett varamarkmenn sína inn á.
18. mín: Staðan er 9:9. Leikurinn er aðeins hægari núna sem eðlilegt er því hraðinn var mikill á fyrstu 10 mínútunum. Spennustigið er gífurlega hátt og stuttur þráðurinn í leikmönnum.
10. mín: Staðan er 6:5 fyrir FH. Haukar jöfnuðu 4:4 og 5:5. Leikurinn lofar virkilega góðu. Mikil barátta, hraði og hasarinn mikill.
5. mín: Staðan er 4:2 fyrir FH. Mikill kraftur í FH-ingum í upphafi leiks og þeir komust í 3:0. Ólafur Gústafsson hefur farið illa með Sigurberg Sveinsson og skorað tvö mörk úr skyttustöðunni hægra megin.
0. Ólafur Guðmundsson og Bjarni Fritzson eru báðir á leikskýrslu hjá FH en hinn reynslumikli Bjarki Sigurðsson er fjarri góðu gamni.