Yfirlýsing frá Fram og foreldrum Arnars

Jón Karl Björnsson fer innúr horninu og Arnar grípur í …
Jón Karl Björnsson fer innúr horninu og Arnar grípur í fót hans. mbl.is/Eyjólfur Garðarsson

Handknattleiksdeild Fram og foreldrar Arnars Birkis Hálfdánssonar, leikmanns félagsins, hafa gefið út eftirfarandi yfirlýsingu vegna atviks í leik Gróttu og Fram í úrvalsdeild karla, N1-deildinni, sl. fimmtudag:

Fyrir hönd Arnars Birkis og í samráði við hann hörmum við atvikið sem átti sér stað í leik Gróttu og Fram sl. fimmtudagskvöld. Arnar Birkir biður leikmann Gróttu, Jón Karl Björnsson og handknattleikshreyfinguna alla velvirðingar á þessu leiða atviki.

Fram hefur komið í samtali okkar við Arnar Birki að hann hafi aldrei ætlað að meiða leikmanninn og ekki haft nein áform um hefndir gegn honum, þetta leiða atvik hafi hinsvegar gerst í hita leiksins. Þess skal getið að Arnar Birkir hefur aldrei áður mætt umræddum leikmanni á handknattleiksvellinum og leikur því vafi á þeirri staðhæfingu að Arnar Birkir hafi „... alltaf reynt að gera eitthvað við hann...“.

Vakin skal athygli á því að í hlut á 16 ára unglingur sem er að hefja feril sinn í meistaraflokki karla í handbolta.

Ofangreindir aðliar harma fréttaflutning þann sem birtist í Fréttablaðinu, laugardaginn 5. desember sl. og byggður á samtali við Arnar Birki.  Þar er meðal annars eftirfarandi haft eftir drengnum, 16 ára gömlum: „Ég held að hann  (Jón Karl Björnsson) eigi þetta skilið“  og síðar í greininni „Ég hef aldrei þolað þennan mann og alltaf reynt að gera eitthvað við hann og þarna kom að því“

Í tengslum við þetta er það umhugsunarefni þegar fréttamaður setur sig í samband við 16 ára gamlan ungling sem telst barn að barnaverndarlögum, í þeim tilgangi einum að búa til neikvæða umfjöllun sem valdið hefur tilfinningalegum erfiðleikum fyrir alla þá sem að drengnum standa og til að skaða íþróttafélag hans og handknattleiksíþróttina.

Með kveðju,
Handknattleiksdeild Fram
Foreldrar Arnars Birkis

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert