Aron: Áherslurnar gengu upp

Björgvin Hólmgeirsson brýst í gegnum vörn Akureyrar í leiknum í …
Björgvin Hólmgeirsson brýst í gegnum vörn Akureyrar í leiknum í kvöld. mbl.is/Þórir Tryggvason

Aron Kristjánsson, þjálfari Hauka, sagði við mbl.is eftir sigurinn gegn Akureyringum, 24:20, norðan heiða í kvöld að hann væri virkilega ánægður með sína menn sem eru enn taplausir á toppi úrvalsdeildarinnar.

„Þær áherslur sem við lögðum upp fyrir þennan leik gengu upp. Við vitum að Akureyringarnir eru með reynslumikla og klóka leikmenn en þeir eru ekkert sérlega hraðir. Vörnin náði að stöðva þessa menn og taka bitið úr sókninni.

Í seinni hálfleiknum slaknaði aðeins á þessu en það er bara eðlilegt. Við spiluðum erfiðan leik á sunnudaginn og það var kannski smá þreyta í okkur í restina. Það hefur gengið vel hjá okkur núna. Við erum taplausir í deildinni, áfram í bikarnum og í Evrópukeppninni svo ég get ekki kvartað. Næst er það HK í deildinni, frestaður leikur og sá síðasti fyrir jól."

Aron var svo spurður um deildabikarinn sem verður á milli jóla og nýárs. „Við erum ekkert farnir að spá í þá keppni. Við hugsum bara um næsta leik og það hefur gengið hjá okkur hingað til. Við missum okkur ekkeert í einhverjum skýjaborgum. Við beinum sjónum okkar bara að næsta leik því það er hann sem skiptir mestu máli".

Að lokum vildi Aron hrósa Akureyringum fyrir frábæra umgjörð í kringum leikinn og magnaðan stuðning áhorfenda þótt þeir rúmlega þúsund manns sem voru í Íþróttahöllinni hafi nær allir verið á bandi heimamanna.

Sjá nánari umfjöllun um leikinn í íþróttablaði Morgunblaðsins í fyrramálið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert