Íslenska landsliðið í handknattleik karla lagði Þjóðverja öðru sinni á tveimur dögum og aftur með fjögurra marka mun, nú 33:29. Staðan í leikhléi var 18:17 fyrir Ísland en leikið var í Regensburg í Þýskalandi.
Staðan var 25:25 um miðjan síðari hálfleikinn en Ísland var sterkara á lokasprettinum og sigraði.
Ólafur Stefánsson gerði 9 mörk fyrir Ísland, Guðjón Valur Sigurðsson gerði 6, Alexsander Petersson 5, Snorri Steinn Guðjónsson 4/1, Vignir Svavarsson 2, Aron Pálmarsson 2, Ingimundur Ingimundarson 2, Arnór Atlason 2 og Róbert Gunnarsson 1.
Fyrri leiknum í Nürnberg í gær lauk með sigri Íslands, 32:28. Íslenska liðið heldur nú heim á ný og mætir Portúgal í vináttulandsleik í Laugardalshöllinni á miðvikudagskvöldið.