Joachim Boldsen, fyrrverandi landsliðsmaður Danmerkur í handknattleik, gerir viðureign Íslands og Danmerkur í úrslitakeppni EM skil í færslu á bloggsíðu sinni í dag. Þar segir hann að ekki beri að skrifa sigur Íslands á frábæra frammistöðu íslenska liðsins heldur á hrikalega frammistöðu þess danska.
Boldsen segir nauðsynlegt að Ulrik Wilbek þjálfari og aðstoðarmaður hans, Peter Bredstorff, vinni að því að bæta hugarfar leikmanna danska liðsins.
„Það er jú ekki svo að íslenska liðið hafi átt einhvern stórleik heldur spilaði Danmörk einn sinn versta leik undir stjórn Ulrik Wilbek. Það var einungis vörnin sem virkaði að einhverju leyti en sóknin var hins vegar ekki nálægt því að vera nógu góð til að brjóta íslensku vörnina á bak aftur,“ skrifaði Boldsen sem leggur til að Jesper Jensen verði kallaður til Austurríkis til að bæta sóknarleik Dana.
Boldsen er þó á því að ekki sé öll nótt úti enn fyrir Dani í mótinu enda hafi þeir áður lent í svipuðum áföllum en unnið sig fljótt út úr þeim.
„Ef maður ímyndar sér að danska liðið sé bíll þá má segja að hann þarfnist viðgerðar eftir nokkrar rispur og kannski eina eða tvær dældir,“ skrifaði Boldsen.