Barein tryggði sér þátttökurétt í fyrsta sinn á heimsmeistaramóti í handknattleik karla í gær með sigri á Sádi-Arabíu, 26:25, í Asíukeppninni með hreint ævintýralegu marki á næst síðustu sekúndu leiksins.
Sádi-Arabar voru með boltann þegar sjö sekúndur voru eftir af leiknum í jafnri stöðu, 25:25. Þeir voru auk þess tveimur mönnum fleiri. Markvörður Barein varði síðasta skot Sádi-Araba, boltinn barst til Bareinans Saeed Jawhar sem kastaði yfir endilangan leikvöllinn og hitti markið án þess að markvörður Sáda fengi rönd við reist, hreint stórkostlegt mark.
Barein og Suður-Kórea leika til úrslita í Asíukeppninni en Sádi-Arabar eiga ennþá möguleika á að tryggja sér farseðilinn á HM en til þess verða þeir að vinna Japani í viðureign um þriðja sætið. Þrjár efstu þjóðir Asíukeppninnar verða með á HM sem hefst í Svíþjóð um miðjan janúar á næsta ári.