Gunnar Berg Viktorsson var í essinu sínu í fagnaðarlátunum í Laugardalshöllinni í dag eftir að Haukar tóku við bikarnum. Haukar sigruðu Val 23:15 í úrslitaleik Eimskipsbikarkeppninnar í handknattleik og Gunnar var í lykihlutverki í vörninni. Gunnar bað fyrir samúðarkveðjur til Arnars Péturssonar.
„Ég vil koma á framfæri samúðarkveðjum frá okkur til Arnars Péturssonar félaga okkar í Vestmannaeyjum. Hann hefur beðið allan sinn feril eftir því að verða bikarmeistari. Hann skipti yfir í ÍBV fyrir tímabilið og þá tókst okkur að vinna bikarinn. Hann er örugglega alveg í molum yfir þessu. Hann var reyndar að spá í að skipta aftur yfir í Hauka eftir að við unnum okkur sæti í bikarúrslitaleiknum en hann spilaði bikarleik með ÍBV í haust og hefði því verið ólöglegur,“ sagði Gunnar léttur í samtali við mbl.is en hann og Arnar hafa verið vopnabræður í handboltanum bæði hjá ÍBV og Haukum.
Gunnar sagði varnarleikinn hafa verið frábæran hjá Haukum í leiknum. „Er það ekki bara met að fá bara á sig 15 mörk í bikarúrslitaleik? Ég veit svo sem ekki hvernig þetta var í gamla daga. Þó þeir hafi verið lélegir í sókninni að einhverju leyti þá er ekki hægt að taka það af okkur að við vorum frábærir í vörninni. Við spiluðum bara eins og herforingjar,“ sagði Gunnar og gat ekki neitað því að Haukarnir hafi verið búnir að kortleggja sóknarleik Vals. „Já. Við höfum verið á videófundum síðan á þriðjudaginn og vissum svo sem hvernig þeir myndu spila. Mér fannst skrítið að þeir skyldu ekki koma með eitthvað nýtt. Þetta var bara það sama og alltaf.“
Fjallað er um leikinn í átta síðna íþróttablaði Morgunblaðsins á mánudaginn.