Alfreð Gíslason þjálfari þýska meistaraliðsins Kiel hefur verið útnefndur þjálfari ársins 2009 í Þýskalandi. Undir stjórn Alfreðs varð liðið þýskur meistari á síðustu leiktíð og varð einnig bikarmeistari og þá komst það í úrslit Meistaradeildarinnar en beið þar lægri hlut fyrir Ciudad Real.
Þetta er í annað sinn sem Alfreð hlýtur þessa viðurkenningu en í fyrra skiptið var það árið 2001 þegar hann var við stjórnvölinn hjá Magdeburg.
,,Ég er að vonum ánægður með þessa viðurkenningu en allt starfslið Kiel á sinn þátt í henni,“ segir Alfreð í viðtali við þýska netmiðilinn handballword.com en Alfreð tók við þjálfun Kiel sumarið 2008.
Alfreð hlaut 419 atkvæði í kjörinu sem þjálfarar og lesendur tímaritsins Hanball-Magazin tóku þátt í. Annar varð Martin Heuberger þjálfari unglingalandsliðs Þjóðverja og í þriðja sæti hafnaði Martin Schwalb þjálfari Hamburg.