Rosalega leiðinlegt að spila gegn svona vörn

Þorgerður Anna Atladóttir var markahæst hjá Stjörnunni í kvöld með …
Þorgerður Anna Atladóttir var markahæst hjá Stjörnunni í kvöld með sex mörk. Ómar Óskarsson

Þorgerður Anna Atladóttir úr Stjörnunni var svolítið lúin eftir átakaleik gegn Val í N1-deild kvenna í handknattleik í kvöld því Valskonur léku öfluga 3+3 vörn, sem Garðbæingar áttu fá svör við í 27:22 tapi í Mýrinni í Garðabæ.

„Við vorum alveg búnar að undirbúa okkur fyrir svona vörn því Valsliðið hefur spilað svona gegn okkur í öllum leikjunum og við höfum æft að spila gegn henni en núna gekk sókn okkar ekki upp og við fengum alltof mörg hraðaupphlaup á okkur sem hefur ekki gerst gegn Val og á ekki að gerast.

Það er rosalega leiðinlegt að spila gegn svona vörn en eins og sást þá virkar hún og það vissi Valsliðið alveg. Maður þarf að vera mjög fljótur á löppunum og geta fylgt sínum manni algerlega eftir. Það gerði Valur einmitt í dag og síðan veltur mest á hvort liðið er fljótara og við þurfum að nota eins marga leikmenn og við getum í svona leik.

Við þekkjum Valsliðið alveg eins vel og það þekkir okkur en þá skiptir einbeitingin máli. Við komumst yfir í byrjun leiks og svo er jafnt á öllum tölum en í lok síðari hálfleiks skríða þær framúr okkur þegar við spilum ekki nógu góða vörn og þá gengur markvarslan ekki heldur en Valsliðið var einfaldlega betra í dag,“  sagði Þorgerður eftir leikinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert