Haukar unnu nauman sigur á Fram

Björgvin Hólmgeirsson ógnar marki Fram í leiknum í kvöld.
Björgvin Hólmgeirsson ógnar marki Fram í leiknum í kvöld. mbl.is/Ómar

Haukar innbyrtu í kvöld erfiðan sigur á Frömurum, 33:32, þegar 17. umferð N1-deildar karla í handknattleik lauk. Þar með hafa þeir náð sex stiga forskoti á toppi deildarinnar. Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

Markahæstur hjá Fram var Andri Berg Haraldsson með 8 mörk en Haraldur Þorvarðarson og Einar Rafn Eiðsson gerðu fimm mörk hvor. Hjá Haukum gerði Sigurbergur Sveinsson 9 mörk og Freyr Brynjarsson sex mörk. Magnús Erlendsson varði 18 skot fyrir Fram og Aron Rafn Eðvarðsson 17 fyrir Hauka.

60. Leik lokið. Sigurbergur kom Haukum í 32:31 með góðu marki upp úr aukakasti þegar sóknartími Hauka var alveg að renna út, og Guðmundur Árni Ólafsson jók muninn í tvö mörk með marki eftir vítakast sem Magnús varði. Guðjón Drengsson minnkaði muninn 10 sekúndum fyrir leikslok og lokastaðan því 33:32 eftir hörkuleik.

57. Stefán Baldvin Stefánsson var að jafna metin í 31:31 með marki úr hraðaupphlaupi. Haukum gengur illa að sækja eftir að Sigurbergur var tekinn úr umferð og verða að leysa úr því fljótt.

54. Haukar eru tveimur mörkum yfir, 28:30, en leikurinn er stopp vegna meiðsla Magnúsar Stefánssonar. Magnús kastaði sér á eftir boltanum sem lá á jörðinni og slíkt hið sama gerði Einar Örn Jónsson. Báðir náðu taki á boltanum en Einar náði honum á endanum með fremur fólskulegum hætti að mati Framara. Öxl Magnúsar virðist altént í ólagi eftir aðfarirnar og hann neitar að taka í hönd Einars.

50. Eftir að Framarar höfðu gert fjögur mörk í röð og jafnað metin gerðu Haukar næstu þrjú og þeir halda því forskoti. Staðan er 29:26 og útlit fyrir að toppliðið nái sér í sex stiga forskot á toppi deildarinnar. Miklu munar um þátt Arons Rafns í markinu en hann hefur dottið betur í gírinn í seinni hálfleik og er kominn með 14 varin skot.

44. Haukum gengur illa að slíta heimamenn frá sér. Framarar voru að jafna metin með sínu fjórða marki í röð, 24:24, og þar var að verki Einar Rafn Eiðsson með sitt fimmta mark en hann er vítaskytta Fram. Í kjölfarið tók Aron Kristjánsson þjálfari Hauka leikhlé.

40. Haukar gerðu þrjú mörk í röð og komust í 24:20. Þetta er mesti munur sem verið hefur á liðunum í leiknum.

35. Seinni hálfleikurinn hófst nákvmæmlega eins og sá fyrri því Haukar gerðu fyrstu þrjú mörkin áður en Andri Berg svaraði fyrir Fram og staðan því 21:19 fyrir Hauka. Andri fékk strax í næstu sókn Hauka tveggja mínútna brottvísun.

30. Hálfleikur. Staðan eftir fjörugan og skemmtilegan fyrri hálfleik er jöfn, 18:18, og hefur munurinn á liðunum mestur verið aðeins þrjú mörk. Framarar hafa aldrei komist yfir í leiknum en skoruðu tvö síðustu mörkin og fengu tækifæri til að komast yfir í síðustu sókninni áður en flautan gall og leikmenn gengu til búningsklefa.

Markahæstur hjá Fram er Andri Berg Haraldsson með sex mörk, flest úr laglegum þrumuskotum utan af velli, enhjá Haukum hefur Sigurbergur Sveinsson gert sex og Freyr Brynjarsson fjögur. Magnús Erlendsson hefur varið tíu skot hjá Fram en fimm þeirra hafa farið aftur til mótherja. Hjá Haukum hefur Aron Rafn Eðvarðsson varið fimm skot eftir að hann kom inná á 8. mínútu.

25. Elías Már Halldórsson var að koma Haukum í 16:14 með marki úr hraðaupphlaupi eftir að staðan hafði verið 14:14. Freyr Brynjarsson hefur verið drjúgur í horninu hjá Haukum og er kominn með fjögur mörk, og Andri Berg Haraldsson er einnig kominn með fjögur fyrir Fram, sum hver af dýrari gerðinni.

20. Staðan er nú orðin jöfn, 11:11, í fyrsta sinn frá upphafsmínútu leiksins. Magnús Stefánsson hefur gert þrjú mörk fyrir Fram en Sigurbergur er kominn með fimm fyrir Hauka.

18. Framarar voru að fá tækifæri til að jafna metin í 10:10 en Aron Rafn varði og Björgvin Hólmgeirsson kom Haukum í 11:9 í kjölfarið.

13. Sigurbergur Sveinsson hefur farið vel af stað í leiknum og var að breyta stöðunni í 9:6 fyrir Hauka með sínu fjórða marki.

8. Það hefur verið mikið skorað hér á upphafsmínútunum og staðan orðin 6:4 Haukum í vil eftir sjö mínútna leik. Magnús Erlendsson átti rétt í þessu fyrstu markvörslu kvöldsins en Framarar nýttu ekki hraðaupphlaupið. Hjá Haukum er hinn ungi Aron Rafn Eðvarðsson kominn í markið í stað Birkis Ívars Guðmundssonar sem hafði ekkert varið.

5. Haukar hafa byrjað leikinn betur og virðast staðráðnir í að enda góða sigurgöngu Framara sem hafa unnið þrjá leiki í röð. Þeir gerðu fyrstu þrjú mörkin en Einar Rafn Eiðsson var að svara fyrir Fram úr vítakasti og staðan því 3:1.

Fín stemning er í Safamýrinni og ágætlega mætt. Halldór J. Sigfússon leikur ekki með Fram í kvöld vegna meiðsla.

Björgvin Þór Hólmgeirsson hefur farið á kostum með Haukum í …
Björgvin Þór Hólmgeirsson hefur farið á kostum með Haukum í vetur. mbl.is/Golli
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert