Austurríska handknattleikssambandið er svo ánægt með hversu vel til tókst hjá því við að halda Evrópumeistaramótið í byrjun þessa árs að það hefur í hyggju að sækja um að verða gestgjafi heimsmeistaramóts karla eftir fimm ár.
Skipulagning og framkvæmd mótsins var öll til fyrirmyndar og fjárhagslega mun mótið einnig hafa gengið vel hjá Austurríkismönnum og skilað nokkrum afgangi, samkvæmt bráðabirgðauppgjöri.
Síðast en ekki síst þá segja forsvarsmenn austurríska handknattleikssambandsins að mótið hafi vakið mikla athygli á handknattleik í landinu. Þá hafi landsliðið, undir stjórn Dags Sigurðssonar, náð framúrskarandi árangri og m.a. verið ofar en þýska landsliðið þegar upp var staðið. Það þykir Austurríkismönnum alls ekki vera leiðinleg staðreynd.