„Það er mikil stemning hérna á Akureyri og það má segja að gamli handboltabærinn Akureyri sé vaknaður til lífsins á ný,“ sagði Hannes Karlsson, formaður Akureyrar handboltafélags, við Morgunblaðið í gær.
Akureyri tekur á móti Val í undanúrslitum Íslandsmóts karla á óvenjulegum tíma í kvöld, klukkan 20, eftir að hafa sigrað, 27:24, á Hlíðarenda í fyrradag.
„Það er reyndar búin að vera góð stemning í kringum liðið í allan vetur. Við höfum fengið 800-900 manns á flesta heimaleiki, jafnvel meira, og það hefur verið svakalega gaman, sérstaklega vegna þess að fólkið hefur haldið tryggð við liðið þó gengi þess hafi sveiflast. Nú eigum við þennan möguleika og það er geysilegur áhugi fyrir þessum leik við Val. Þetta er fjórða árið sem við teflum fram þessu sameiginlega liði Akureyrar og við erum að komast smám saman þangað sem við ætluðum okkur,“ sagði Hannes.
Hann kvaðst ekki vera viss um hve margir kæmust í Höllina. „Hún tekur um 900 í sæti og svo verður raðað upp stólum niðri á gólfi eins og mögulegt er. Vonandi komast allir að sem vilja. Þessi óvenjulegi leiktími er til kominn vegna Andrésar Andar leikanna, við fengum ekki húsið fyrr. En það er stemning fyrir þessum kvöldleik, spaugstofan er komin í frí og truflar ekki okkur eða við þá, og ég vona bara að við fáum góðan leik,“ sagði Hannes Karlsson. seth@mbl.is