Íslandsmeistarar Hauka í úrslit

Haukar fagna sigrinum gegn HK í dag.
Haukar fagna sigrinum gegn HK í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Íslandsmeistarar Hauka tryggðu sér sæti í úrslitum Íslandsmótsins í handknattleik karla í dag þegar þeir unnu HK, 21:19, í spennuleik í Digranesi. Haukar unnu þar með annan leikinn í einvígi liðanna og mæta annað hvort Akureyri eða Val í úrslitum.

Haukar voru sterkari í leiknum frá upphafi en HK-menn vöknuðu til lífsins síðustu tíu mínúturnar eftir að hafa verið fimm mörkum undir, 18:13, þegar 12 mínútur voru til leiksloka. HK tókst að jafna metin, 19:19, þegar hálf önnur mínúta var til leiksloka. Pétur Pálsson skoraði 20. mark Hauka þegar ein mínúta var eftir. Þá náði hann frákasti eftir að skot Björgvins Hólmgeirssonar hafði farið í stöng HK marksins. HK hóf sókn í framhaldinu en Sverrir Hermannsson sendi boltann út af þegar 33 sekúndur voru eftir. Haukar héldu boltanum til leiksloka og Einar Örn Jónsson innsiglaði sigurinn fjórum sekúndum fyrir leikslok, 21:19.

Mörk HK: Atli Ævar Ingólfsson 9, Sverrir Hermannsson 3, Atli Karl Bachmann 2, Bjarki Már Gunnarsson 2, Bjarki Már Elísson 1, Hákon Bridde 1, Ólafur Víðir Ólafsson 1.
Varin skot: Sveinbjörn Pétursson 24/1 (þaraf 9 til mótherja).
Utan vallar: Aldrei.
Mörk Hauka: Björgvin Hólmgeirsson 7, Elías Már Halldórsson 4, Sigurbergur Sveinsson 3, Guðmundur Árni Ólafsson 2/1, Pétur Pálsson 2, Freyr Brynjarsson 1.
Varin skot: Birkir Ívar Guðmundsson 15/1 (þaraf 4 til mótherja).
Utan vallar: 6 mínútur.

55. Mikil spenna hlaupin í leikinn eftir að leikmenn HK vöknuðu af værum blundi rúmum tíu mínútum fyrir leikslok. Þeir hafa nú minnkað forskot Hauka í eitt mark, 19:18, og voru nærri því að jafna metin en Birkir Ívar varði frá Atla Ævari af línunni.

48. HK tekur leikhlé. Haukar hafa skorað tvö síðustu mörk leiksins og eru nú fimm mörkum yfir, 18:13.

45. Sóknarleikur HK er í molum sem fyrr gegn mjög beittri framliggjandi vörn Hauka. Sveinbjörn Pétursson fer á kostum í marki HK en það stoðar lítt þegar félögum hans tekst ekki að skora hinum megin vallarins. Staðan 15:12, fyrir Hauka.

39. Haukar hafa heldur bætt í forskot sitt í upphafi síðari hálfleiks og eru nú fjórum mörkum yfir, 14:10. Kappið hefur borið menn nokkrum sinnum ofurliði á þessum upphafsmínútum síðari hálfleiks, hraðinn hefur verið talsverður og leikmenn ekki alveg ráðið við hann á tíðum.

30. Flautað hefur verið til loka fyrri hálfleiks. Haukar eru tveimur mörkum yfir, 11:9. Þeir voru sterkari en heimamenn í fyrri hálfleik en hafa verið afar mislagðar hendur í skotum sínum. Sem dæmi má nefna að stórskyttan Sigurbergur Sveinsson hefur enn ekki náð að skora þrátt fyrir sex skottilraunir. HK-menn eru daprir og verða að gera mikið betur, ekki síst í sókninni ætli þeir sér að knýja fram oddaleik. Eins vekur athygli að Valdimar Fannar Þórsson hefur ekki skorað mark fyrir HK.

28. Sléttar tvær mínútur til loka fyrri hálfleiks og Haukar taka leikhlé. HK hefur skorað tvö mörk í röð eftir að Haukar náðu um stund fjögurra marka forskot, 10:6. Staðan nú 10:8, Haukum í vil sem virðast þurfa að hafa minna fyrir hlutunum en HK.

25. HK tekur leikhlé þremur mörkum undir, 9:6.

20. Sem fyrr eru Haukar sterkari. Leikmenn  HK hafa verið klaufar og misst boltann nokkrum sinnum út úr höndnum á afar klaufskan hátt. Fyrir vikið töpuðu þeir af tækifærum til að jafna metin, bæði í stöðunni 4:3 og 6:5. Haukar eru þremur mörkum yfir nú, 8:5. Ekkert vítakast hefur verið dæmt enn en í síðasta leik fóru átta vítaköst í súginn hjá leikmönnum liðanna.

10. Haukar byrja leikinn betur en heimamenn. Framliggjandi 5/1 vörn Hauka veldur HK mönnum miklum erfiðleikum. Skotnýting Hauka er slök og fyrir vikið er forysta þeirra ekki meiri en raun ber vitni um, staðan er 4:2, fyrir Hafnfirðinga.

Ragnar Hjaltested leikur ekki með HK að þessu sinni vegna meiðsla.

Nú eru fimm mínútur þar til flautað verður til leiks. Mjög rúmt er um áhorfendur í Digranesi og alveg ljóst að pláss er fyrir fleiri án þess að til uppþota komi.

Dómarar leiksins verða Arnar Sigurjónsson og Svavar Pétursson. Eftirlitsmaður er Guðjón Leifur Sigurðsson.

Elías Már Halldórsson verður í með Haukum í dag þegar …
Elías Már Halldórsson verður í með Haukum í dag þegar þeir sækja HK heim. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert