Júlíus ráðinn þjálfari Vals

Júlíus Jónasson.
Júlíus Jónasson. mbl.is/Ómar Óskarsson

Júlíus Jónasson hefur verið ráðinn þjálfari karlaliðs Vals í handkattleik og mun taka við starfinu af Óskari Bjarna Óskarssyni að loknu yfirstandandi tímabili en Valsmenn leika til úrslita gegn Haukum um Íslandsmeistaratitilinn og verður fyrsti leikurinn á Ásvöllum á föstudaginn.

Óskar Bjarni hefur verið við stjórnvölinn hjá Hlíðarendaliðinu undanfarin sjö ár. Undir hans stjórn varð Valur Íslandsmeistari fyrir þremur árum og lék til úrslita við Hauka um Íslandsmeistaratitilinn á síðasta ári. Þá vann Valur bikarmeistaratitilinn í fyrra og í hittifyrra undir stjórn Óskars og komst í úrslit á þessu ári en varð að sætta sig við tap.

Júlíus hefur þjálfað kvennalandslið Íslands frá því haustið 2006 og í fréttatilkynningu sem Valsmenn hafa sent frá sér vilja þeir koma því á framfæri að ráðning Júlíusar er gerð í fullu samráði við HSÍ og hann stýra kvennalandsliðinu áfram samhliða þjálfarastarfinu hjá Val.

Júlíus er uppalinn Valsari, lék með félaginu upp alla yngri flokka og hefur unnið alla titla sem hægt er að vinna í meistaraflokki með félaginu. Í framhaldi af farsælum ferli hjá Val hélt Júlíus í atvinnumennsku.

Hann lék í 10 ár sem atvinnumaður í Frakklandi, Spáni, Þýskalandi og Sviss, nánar tiltekið í PSG, Bidasoa, Alzira, Gummersbach og St Otmar. Að loknum atvinnumannaferlinum kom hann heim og spilaði tvö ár með Val. Júlíus þjálfaði síðan meistaraflokks lið karla hjá ÍR í 5 ár og  gerði liðið m.a. að bikarmeisturum. 


 


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert