Afturelding leikur í úrvalsdeild karla í handknattleik á næsta keppnistímabili en Gróttumenn verða að bíta í það súra epli að falla niður í 1. deild. Þetta varð ljóst í kvöld eftir að Afturelding vann Gróttu, 33:25, í síðari leik liðanna í umspili um sæti í úrvalsdeild á næsta leiktíð. Afturelding vann einnig fyrri leikinn.
Í gríðarlegri stemningu og mannmergð í íþróttahúsinu að Varmá í kvöld, þar sem örugglega voru 1.000 áhorfendur í gamla íþróttahúsinu, áttu leikmenn Gróttu aldrei möguleika. Þeir komust reyndar í 3:0 en eftir það jafnaði Afturelding leikinn og leiðir skildu fljótlega. Staðan var 16:9 í hálfleik og í síðari hálfleik þá gerðu Mosfellingar algjörlega út um leikinn, hafi einhver vafi leikið á eftir fyrri hálfleikinn. Aftureldingarliðið náði mest ellefu marka forskoti nokkrum sinnum í síðari hálfleik. Gróttumenn áttu ekkert svar við hröðum sóknarleik Mosfellinga og frábærri vörn og að baki hennar, Smára Guðfinnssyni markverði, sem varði 21 skot, þar af 2 vítaköst.
Jón Andri Helgason skoraði 8 mörk fyrir Aftureldingu og var markahæstur. Aron Gylfason og Magnús Einarsson skoruðu fimm mörk hvor.
Anton Rúnarsson var markahæstur hjá Gróttu með sex mörk.
46. Úrslit virðast ráðin. Afturelding er níu mörkum yfir, 26:17. Liðið náði mest ellefu marka forskoti, 26:15. Gróttumenn virðast ekki eiga mörg svör í síðari hálfleik við leik Aftureldingar og gríðarlegum stuðningi áhorfenda. Hér heyrist var mannsins mál, hitinn er gríðarlegur og strax í fyrri hálfleik voru neyðarútgángar opnaðir til þess að fá ferskt loft inn.
39. Grótta tekur leikhlé. Að óbreyttu stefnir í að leikmenn liðsins verði kjöldregnir að Varmá, staðan er 22:13.
37. Hagur Gróttumanna vænkast lítt á upphafsmínútum síðari hálfleiks. Vörn þeirra er götótt og sóknarleikurinn ekkert sérstakur, markvarsla er engin. Sóknarleikur Aftureldingar hefur verið hraður á upphafsmínútunum og náðst hefur að opna vörn Gróttu nokkrum sinnum. Staðan er 20:12, Aftureldingu í vil, í troðfullu íþróttahúsinu að Varmá þar sem svitinn bogar af áhorfendum.
30. Flautað hefur verið til loka fyrri hálfleiks. Afturelding er sjö mörkum yfir, 16:9. Aftureldingarliðið komst í 13:7 eftir 21 mínútu þegar hver mistökin ráku önnur í sóknarleik Gróttu og Afturelding fékk nokkur auðveld mörk eftir hraðaupphlaup. Eftir góða byrjun, þar sem Grótta komst í 3:0, datt allir botn úr liðinu. Leikmenn liðsins hafa upp á fáar lausnir að bjóða í sóknarleiknum gegn góðri vörn Aftureldingar og Smára markverði sem hefur farið á kostum og varið 11 skot í marki Mosfellinga.
Jón Andri Helgason er markahæstur hjá Aftureldingu með sex mörk. Magnús Einarsson hefur skorað þrjú mörk.
Hjá Gróttu er Atli Rúnar Steinþórsson markahæstur með þrjú mörk. Magnús Sigmundsson hefur varið sex skot í marki Gróttu.
Ljóst er að Gróttumenn verða heldur betur að bæta leik sinn í síðari hálfleik til þess að snúa leiknum sér í hag.
20. Grótta tekur leikhlé. Staðan er 10:7, Aftureldingu í hag. Ekkert hefur gengið hjá liðinu síðustu mínútur. Matthías Árni Ingimarsson var reyndar utan vallar í tvær mínútur en hann er nú mættur til leiks á ný. Afturelding nýtti sér liðsmuninn og skoraði tvö mörk gegn engu einu fleiri.
15. Afturelding er yfir, 7:6, og á nú möguleika á að komast tveimur mörkum yfir. Smári Guðfinnsson, markvörður Aftureldingar, var að verja vítakast frá Jóni Karli Björnssyni. Afturelding hefur verið sterkari síðustu mínútur.
8. Grótta byrjaði leikinn betur og komst í 3:0. Mosfellingar hafa fært sig hægt inn í leikinn voru nú að minnka metin í 5:4, fyrir Gróttu.
Dómarar í kvöld verða Ingvar Guðjónsson og Jónas Elíasson. Eftirlitsmaður HSÍ er Kristján Halldórsson, Sissi.
Íþrótthúsið að Varmá er algjörlega orðið troðfullt út úr dyrum og sennilega verða einhverjir frá að hverfa. Leikið er í gamla salnum sem tekinn var í gangnið haustið 1977. Þar er rúm fyrir um 800 áhorfendur en líklegt má telja að fleirum verði troðið inn. Staðið er allsstaðar sem hægt er að standa. Um sæti er ekki að ræða. Þau eru öll setin fyrir lifandis löngu. Mikið fjör og hávaði í stuðningsmönnum Aftureldingar sem eru í miklum meirihluta. Allskyns söngvar og slagorð eru sungin.
Hálftíma fyrir leik var ekki hægt að fá bílastæði nær íþróttahúsinu en í 10 mínútna göngufæri.