Aron: Þessi titill er sá sætasti

Aron Kristjánsson, þjálfari Hauka.
Aron Kristjánsson, þjálfari Hauka. hag / Haraldur Guðjónsson

„Þetta er sá sætasti af þeim þremur Íslandsmeistaratitlum sem ég hef unnið með Haukum á síðustu þremur árum og jafnframt sá torsóttasti,“ sagði Aron Kristjánsson, þjálfari Íslandsmeistara Hauka í handknattleik karla eftir að titilinn var í höfn í dag með sigri á Val í fimmta leik liðanna um Íslandsbikarinn. 

Aron hefur stýrt Haukum í þrjú ár og öll árin orðið Íslandsmeistari. Hann yfirgefur nú félagið og flytur til Þýskalands í sumar þar sem hann tekur við þjálfun Hannover-Burgdorf. Hann skilur því við Hauka í góðri stöðu en þeir unnu alla titla sem í boði voru á keppnistímabili. Auk Íslandsmeistaratitilsins unnu Haukar deildarkeppnina, bikarkeppnina, deildabikarinn og meistarakeppni HSÍ.

„Fyrsti titilinn sem ég vann með Haukunum vorið 2008 var líka alveg hrikalega sætur því liðið hafði nærri því fallið úr deildinni vorið 2007, áður en ég tók við stjórnvölunum. Það var því unnu mikið starf veturinn 2007 til 2008 eftir að ég kom til félagsins að snúa öllu andanum í félaginu í rétta átta á nýjan leik," sagði Aron í dag. 

„Þetta keppnistímabil hefur verið mikið ævintýri. Áður en það hófst misstum við fimm leikmenn frá okkur. Til viðbótar hefur Gunnar Berg Viktorsson ekkert getað leikið með okkur í sóknarleiknum í vetur. Þar með var hálfur maður farinn í viðbót. Við fengum tvo leikmenn í staðinn, Björgvin Hólmgeirsson og Guðmund Árna Ólafsson. Þrátt fyrir miklar breytingar þá unnum við alla titlana á keppnistímabilinu. 

„Það er fyrst og fremst karakterinn í Haukaliðinu sem er einstakur. Hann hefur skapað þetta því leikmenn liðsins, allir með tölu, eru sigurvegarar. Sigurhugsun liðsins er einstök sem sýnir sig best að við höfum unnið marga jafna leiki í vetur," segir Aron Kristjánsson, þjálfari Hauka.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert