Löwen fékk skell í Flensburg

Alexander Petersson skoraði þrjú mörk fyrir Flensburg í sigurleiknum á …
Alexander Petersson skoraði þrjú mörk fyrir Flensburg í sigurleiknum á RN Löwen í dag. Kristinn Ingvarsson

Flensburg vann öruggan sigur á Rhein-Neckar Löwen, 32:25, í þýsku 1. deildinni í handknattleik í Campushalle í Flensburg í dag. Liðið eiga í harðri baráttu um sæti í Meistaradeild Evrópu á næsta keppnistímabili og styrkti sigurinn í dag verulega stöðu Flensburg í þeirra baráttu.

Leikmenn Flensburg byrjuðu með látum í dag fyrir fram 6.300 áhorfendur í fullri íþróttahöll á heimavelli. Hreinlega var um einstefnu að ræða af þeirra hálfu og í raun má segja að úrslit leiksins hafi verið ráðin að loknum fyrri hálfleik. Þá munaði 11 mörkum á liðunum, 19:8, Flensburg í vil.

Ólafur Stefánsson skoraði þrjú marka Löwen í leiknum, öll úr vítakasti, og Snorri Steinn Guðjónsson eitt.  Alexander Petersson skorði þrjú mörk fyrir Flensburg sem situr í þriðja sæti deildarinnar með 44 stig að loknum 29 leikjum. Löwen er í fimmta sæti með 41 stig.

Heiðmar Felixson skoraði fimm mörk fyrir Lübbecke gegn sínum gömlu samherjum í Hannover-Burgdorf í dag þegar Lübbecke vann ellefu marka sigur í heimsókn sinni til Burgdorf, 34:23. Þórir Ólafsson skoraði þrjú mörk fyrir Lübbecke sem var með örugga forystu í leiknum frá upphafi til enda. Hannes Jón Jónsson náði ekki að skora fyrir Hannover-Burgdorf að þessu sinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert