Risaslagur Hamburg og Kiel í dag

Aron Pálmarsson í leik með Kiel.
Aron Pálmarsson í leik með Kiel. www.thw-provinzial.de

Alfreð Gíslason og lærisveinar hans í Kiel, Aron Pálmarsson þar meðtalinn, mæta Hamburg í stórleik vetrarins í þýska handboltanum í dag. Liðin tvö eru langefst í 1. deildinni, og viðureign þeirra í Hamborg ræður væntanlega úrslitum um hvar meistaratitillinn hafnar þetta árið. Uppselt er fyrir mörgum mánuðum á viðureign liðanna í O2-höllinni glæsilegu sem rúmar ríflega 13 þúsund áhorfendur.

Kiel hefur orðið meistari fimm ár í röð, síðasta vetur undir stjórn Alfreðs, en Hamburg hefur aldrei komist svona langt. Tvisvar á undanförnum þremur árum hefur silfrið fallið Hamburg í skaut. Nú hefur liðið, undir stjórn Martins Schwalb, hinsvegar eins stigs forystu á Kiel, 57 stig gegn 56. Þremur umferðum er ólokið en ljóst er að vinni Hamburg leikinn í dag er titillinn sama og í höfn því liðið misstígur sig varla gegn bæði Burgdorf og Balingen í tveimur síðustu umferðunum.

Jafntefli myndi líka setja Hamburg í kjörstöðu, þannig að fyrir Alfreð og hans menn dugar ekkert annað en sigur í dag. Þá myndu þeir ná eins stigs forystu en þar með væri björninn ekki unninn. Eftir heimaleik gegn Balingen bíður nefnilega útileikur gegn Grosswallstadt í lokaumferðinni. Það eru því þrír sigrar og ekkert annað sem Alfreð og Aron þurfa á að halda á lokasprettinum í deildinni. vs@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert