Róbert Gunnarsson og samherjar hans í þýska handknattleiksliðinu Vfl Gummersbach urðu í kvöld Evrópumeistarar bikarhafa í handknattleik þrátt fyrir fjögurra marka tap fyrir spænska liðinu Granollers, 37:33, í síðari leik liðanna sem fram fór á Spáni. Gummersbach vann fyrri leikinn á heimavelli sínum með níu marka mun, 34:25, og viðureignirnar tvær með samtals fimm mörkum, 67:62.
Þetta er annað árið í röð sem Róbert, sem er fyrirliði Gummersbach, verur Evrópumeistari í með félaginu. Gummersbach vann EHF-keppnina fyrir ári síðan.
Leikmenn Granollers náðu aldrei að ógna Gummersbach að ráði í síðari leiknum í kvöld. Fyrri hálfleikur var jafnt en Spánverjarnir voru með tveggja marka forskot í hálfleik, 18:16. Gummersbach komst yfir, 23:21, snemma í síðari hálfleik en eftir 45 mínútna leik var Granollers marki yfir, 25:24. Leikurinn var í járnum allt til loka og leikmenn Granollers skoruðu tvö síðustu mörk leikins á síðustu 20 sekúndunum en það dugði skammt.
Róbert lék allan leikinn í kvöld í sókn Gummersbach en tók minna þátt í varnarleiknum. Hann skoraði fjögur mörk.