Alfreð og Aron Evrópumeistarar með Kiel

Alfreð Gíslason, þjálfari Kiel.
Alfreð Gíslason, þjálfari Kiel. AP

Alfreð Gíslason stýrði þýska meistaraliðinu Kiel til sigurs í Meistaradeild Evrópu í handknattleik í dag þegar það lagði Barcelona, 36:34, í úrslitaleik í Köln Arena í Þýskalandi. Aron Pálmarsson lék með Kiel á köflum í leiknum í dag en náði ekki að skora. Hann er því Evrópumeistari á sínu fyrsta ári í atvinnumennsku í handknattleik.

Þetta er í annað sinn sem Alfreð stýrir liði til sigurs í Meistaradeild Evrópu en Magdeburg vann keppnina undir hans stjórn fyrir átta árum. Kiel tapaði í úrslitaleik Meistaradeildar á síðasta ári með Alfreð við stjórnvölin.

Barcelona var sterkara liðið í úrslitaleiknum í dag fyrstu 45 mínútur hans. Spánverjarnir voru þremur mörkum yfir í á hálfleik og náðu mest sex marka forskoti þegar rúmar 40 mínútur voru liðna af leiknum, 25:19. Þá stórbatnaði vörn Kielar-liðsins og Frakkinn Thierry Omeyer hrökk í gang í markinu. Þegar tíu  mínútur voru eftir var Barceloan marki yfir, 29:28. Tveimur mínútum síðar var Kiel komið yfir, 30:29, í fyrsta sinn í leiknum. Eftir það hélt Kielar-liðið forystu til leiksloka. 

Filip Jicha var markahæstur hjá Kiel með 11 mörk.

Árangur Kiel er enn athyglisverðari fyrir þær sakir að það hvorki Kim Andersson né Momir Ilic gátu tekið þátt í leiknum. Reyndar kom Ilic haltrandi til leiks í nokkur skipti og tók vítaköst. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka