Dagur Sigurðsson, landsliðsþjálfari Austurríkis í handknattleik karla, hefur verið kjörinn þjálfari ársins þar í landi. Það voru samtök íþróttafréttamanna í Austurríki sem stóðu að kjörinu.
Dagur, sem stýrt hefur austurríska landsliðinu í handknattleik í tvö ár, er í miklum metum eftir að rifið landsliðið upp á síðustu tveimur árum. Hann stýrði því í 9. sæti á EM á heimavelli í upphafi árs en það var í fyrsta sinn sem Austurríkismenn tóku þátt í lokakeppni EM. Þar lánaðist þeim m.a. að vera fyrir ofan nágranna sína í Þýskalandi en í heild fór árangur heimamanna fram úr vonum. Um helgina fór austurríska landsliðið langt með að tryggja sér keppnisrétt á HM í fyrsta sinn í áratugi þegar það vann Hollendinga, 31:15, í fyrri viðureign þjóðanna um sæti á HM í Svíþjóð um næstu helgi.
Dagur er samningsbundinn austurríska handknattleikssambandinu fram yfir síðari leikinn við Hollendinga um næstu helgi. Að honum loknum ætlar hann að einbeita sér að þjálfun þýska 1. deildarliðsins Füchse Berlin.