Eins marks tap fyrir Brasilíu

Oddur Gretarsson í þann mund að skora eitt sex marka …
Oddur Gretarsson í þann mund að skora eitt sex marka sinna í fyrri leiknum. Ljósmynd/Ingimundur Ingimundarson

Íslenska landsliðið í handknattleik tapaði með eins marks mun, 28:27, fyrir því brasilíska í vináttulandsleik í Brusque í Brasilíu í kvöld. Staðan var jöfn 14:14 í hálfleik en íslenska liðið var lengst af yfirhöndina í síðari hálfleik. Brasilíumenn skoruðu sigurmarkið þegar þrjár sekúndur voru eftir af leiknum.

Snorri Steinn Guðjónsson gat komið íslenska liðinu marki yfir þegar hálf mínúta var eftir en honum brást bogalistinn úr vítakasti. Brasilíumenn hófu sókn sem endaði með sigurmarki þeirra á síðustu sekúndunum. Svona fór um sjóferð þá.

Mörk Íslands: Arnór Þór Gunnarsson 7, Rúnar Kárason 5, Snorri Steinn Guðjónsson 4, Kári Kristján Kristjánsson 3, Arnór Atlason 2, Oddur Gretarsson 2, Sturla Ásgeirsson 2, Sigurbergur Sveinsson 1, Vignir Svavarsson 1.
Varin skot: Björgvin Páll Gústafsson 10 skot, hann stóð í markinu í fyrri hálfleik. Pálmar Pétursson 8 skot, þar af eitt vítakast. Pálmar var í markinu í síðari hálfleik.
Utan vallar: 8 mínútur.

Fylgst var með leiknum í beinni textalýsingu á mbl.is.

57. Þrjár mínútur eftir og íslenska liðið er komið marki yfir, 27:26. Guðmundur Þórður landsliðsþjálfari tók leikhlé þegar þrjár og hálf mínúta var eftir en þá var liðið manni færra.

52. Brasilíumenn hafa nýtt sér að vera einum manni fleiri og hafa nú jafnaði metin, 24:24. Rúnar er utan vallar. Pálmar hefur varið sjö skot, þar af eitt vítakast. Arnór Gunnarsson leikur vel og hefur skorað sjö mörk. Spennandi lokamínútur framundan í íþróttahöllinni í Brusque.

47. Óbreyttur munur á liðunum þegar þrettán mínútur eru til leiksloka. Ísland hefur tveggja marka forskot, 22:20. Rúnar og Arnór G., eru markahæstir með 5 mörk. Pálmar hefur varið fimm skot í markinu en hann leysti Björgvin Pál af að loknum fyrri hálfleik.

41. Snorri Steinn hefur skorað tvö mörk í röð fyrir íslenska liðið sem nú hefur náð tveggja marka forskoti, 19:17.

35. Íslenska liðið er komið yfir í fyrsta sinn í leiknum, 17:16. Rúnar hefur skorað tvö mörk og  Arnór Gunnarsson eitt. Pálmar Pétursson kom í markið í byrjun síðari hálfleik og hefur þegar varið þrjú skot.

30. Flautað hefur verið til loka fyrri hálfleiks og staðan er jöfn, 14:14, þrátt fyrir íslenska liðið hafi verið manni færra síðustu hálfa aðra mínútu hálfleiksins eftir að Arnóri Atlasyni var vísað af leikvelli í tvær mínútur.  Vörnin var slök hjá íslenska liðinu framan fyrri hálfleik en hefur skánað eftir því sem á leikinn hefur liðið. Björgvin Páll hefur farið á kostum í markinu og varið 10 skot.
Mörk Íslands: Arnór Gunnarsson 3, Kári Kristján Kristjánsson 3, Arnór Atlason 2, Sturla Ásgeirsson 2, Oddur Gretarsson, Rúnar Kárason, Sigurbergur Sveinsson og Snorri Steinn Guðjónsson 1 mark hver.
Íslenska lið hefur var utan vallar í 6 mínútur í fyrri hálfleik.

26. Vörn íslenska liðsins hefur heldur batnað síðustu mínútur og fyrir vikið hefur bilið milli liðanna minnkað. Nú munar aðeins einu marki, 12:11, fyrir heimamenn. Verið var að vísa Vigni Svavarssyni af leikvelli í tvær mínútur. Björgvin Páll hefur varið vel. Hann er kominn með níu skot.

21. Staðan hefur lítið batnað þrátt fyrir að Guðmundur þjálfari hafi messað yfir mannskapnum. Staðan er 9:6 fyrir heimamenn. Sturla Ásgeirsson hefur skorað tvö mörk en aðrir minna.

18,10 Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari tekur leikhlé enda hefur hvorki gengið né rekið í leik íslenska liðsins síðustu mínútur. Staðan er 8:4, fyrir Brasilíu.

15. Þrátt fyrir að Björgvin Páll verji vel í íslenska markinu þá hafa Brasilíumenn náð tveggja marka forskoti á nýjan leik, 6:4. Verið var að vísa Rúnari Kárasyni af leikvelli í tvær mínútur. Björgvin Páll hefur varið fimm skot.

10. Íslenska liðið hefur nú jafnað metin. Vörn hefur skánað og Björgvin Páll farinn að verja í markinu. Sturla, Kári Kristján og Snorri Steinn hafa skorað sitt markið hver, staðan er jöfn, 3:3.

5. Eins og fyrsta leiknum þá byrja Brasilíumenn betur. Þeir hafa skorað tvö fyrstu mörk leiksins. Staðan er 2:0.

Brusque verður einn leikstaða á heimsmeistaramóti kvenna í handknattleik sem haldið verður í Brasilíu í desember á næsta ári og leikið í sömu íþróttahöllinni og  Brasilíumenn og Íslendingar leiða saman hesta sína í að þessu sinni.

Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari, stillir upp sama liði og í fyrri viðureigninni sem þýðir að Ásgeir Örn Hallgrímsson og Ingimundur Ingimundarson leika ekki með að þessu sinni vegna meiðsla.

Lið Íslands er skipað eftirtöldum leikmönnum: Björgvin Páll Gústavsson og Pálmar Pétursson eru markverðir. Aðrir leikmenn: Arnór Atlason, Arnór Þór Gunnarsson, Kári Kristján Kristjánsson, Oddur Gretarsson, Ólafur Andrés Guðmundsson, Rúnar Kárason, Sigurbergur Sveinsson, Snorri Steinn Guðjónsson, fyrirliði, Sturla Ásgeirsson, Vignir Svavarsson, Þórir Ólafsson.

Íslenska landsliðið átti erfitt uppdráttar lengi vel í fyrri leiknum og var undir fyrstu 20 - 25 mínúturnar. Eftir það batnaði vörn íslenska liðsins og þá snéri liðið leiknum sér í hagi og náði mest sjö marka forskoti í síðari hálfleik.

Dómarar leiksins í kvöld eru Brasilíumenn. Því miður liggja nöfn þeirra ekki á lausu.

Brasilíumenn eru að búa sig undir undankeppni heimsmeistaramótsins, Ameríkuhlutinn, sem hefst í Santiago í Chile á þriðjudaginn. Þar verða þeir í riðli með Kúbu, Grænlandi og Dóminíkanska Lýðveldinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert