Ingimundur Ingimundarson, landsliðsmaður í handknattleik, skrifaði loks undir samning við danska meistaraliðið AaB frá Álaborg á föstudaginn.
Hálf önnur vika er liðin síðan hann fór utan og hitti forráðamenn félagsins þar sem reiknað var með að skrifað yrði undir samninginn. Vegna meiðsla Ingimundar á hné, sem héldu honum frá keppni í síðustu umferðum þýsku deildarinnar í vor og frá landsleikjum Íslands við Dani og Brasilíu í síðasta mánuði, óskuðu forráðamenn AaB eftir ýtarlegum upplýsingum frá læknum hér á landi um ástand hnésins. Voru þeim sendar myndir og skýrslur frá læknum. Eftir að hafa farið yfir þær upplýsingar var loks skrifað undir eins árs samning.
„Ég er mjög ánægður með að samningurinn skuli vera í höfn. Nú tekur við spennandi tími og ljóst að mikið álag verður á okkur frá því að deildakeppnin hefst í september og fram að áramótum,“ sagði Ingimundur. Auk titilvarnar á heimavelli mun AaB taka þátt í Meistaradeild Evrópu í fyrsta sinn.