Alexander afgreiddi Aron og hans menn

Alexander Petersson byrjar vel með Berlínarliðinu Füchse.
Alexander Petersson byrjar vel með Berlínarliðinu Füchse. mbl.is/Kristinn

Sjö Íslendingar áttust við í íþróttahöllinni í Hannover í kvöld þegar Füchse Berlín, undir stjórn Dags Sigurðssonar, sigraði Hannover-Burgdorf, undir stjórn Arons Kristjánssonar, 26:18, í fyrstu umferð þýsku 1. deildarinnar í handknattleik.

Aron þreytti þarna frumraun sína sem þjálfari í sterkustu deild í heimi. Lærisveinar hans héldu í við Berlínarliðið í 45 mínútur, staðan um miðjan síðari hálfleik var 15:14, Füchse í hag, en þá breyttu Dagur og hans menn stöðunni í 22:15 og tryggðu sér sigurinn.

Alexander Petersson lék sinn fyrsta deildaleik með Füchse, en hann yfirgaf Flensburg í vor. Alexander var í aðalhlutverki hjá Berlínar-refunum og skoraði 8 mörk. Rúnar Kárason gerði eitt mark fyrir liðið.

Ásgeir Örn Hallgrímsson skoraði 3 mörk fyrir Burgdorf og þeir Hannes Jón Jónsson og Vignir Svavarsson eitt hvor. Þeir Ásgeir og Vignir komu til Burgdorf fyrir þetta tímabil, eins og Aron þjálfari.

Ólafur Stefánsson skoraði 2 mörk, annað þeirra úr vítakasti, fyrir Rhein-Neckar Löwen sem vann nauman útisigur á Balingen, 31:30. Róbert Gunnarsson lék sinn fyrsta deildaleik með Löwen en náði ekki að skora mark. Keppinautur hans um stöðuna á línunni, Norðmaðurinn Bjarte Myrhol, skoraði hinsvegar 7 mörk og Pólverjinn snjalli Grzegorz Tkaczyk var markahæstur hjá Löwen með 8 mörk.

Karol Bielecki, pólski risinn sem missti sjón á öðru auga í vor, var í leikmannahópi Löwen eins og á undirbúningstímabilinu en náði ekki að skora mark.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert