Selfyssingar gerðu sér lítið fyrir og unnu Íslandsmeistara Hauka 32:30 í dag í úrslitaleik Ragnarsmótsins í handknattleik sem fram fór á Selfossi.
Þetta er í fyrsta sinn sem heimamenn vinna mótið en það fór nú fram í 21. skiptið. Mótið er haldið til minningar um Ragnar Hjálmtýsson sem lést í bílslysi í september árið 1988.
Guðjón Drengsson, sem kom á Selfoss frá Fram í sumar, skoraði 10 mörk í dag.
Selfyssingar verða nýliðar í N1-deildinni á komandi leiktíð eftir að hafa tryggt sér sæti þar í vor.
HK vann Fram 38:34 í leik um 3. sætið.