Guðmundur Þórður Guðmundsson, sem í gær skrifaði undir fimm ára óuppsegjanlegan samning við þýska handknattleiksliðið Rhein-Neckar Löwen, segir að ráðning sín í starfið muni ekki hafa nein áhrif á störf sín sem landsliðsþjálfari.
Hann sagði jafnframt í viðtali við Morgunblaðið að það væri ekki hægt að sleppa tækifæri sem þessu að þjálfa eitt stærsta handknattleikslið heims.
Guðmundur hefur náð frábærum árangri með landsliðið. Undir hans stjórn unnu Íslendingar til bronsverðlauna á Ólympíuleikunum í Peking fyrir tveimur árum og liðið vann til bronsverðlauna á Evrópumótinu í Austurríki síðastliðinn vetur. Næsta stórmót er svo á dagskrá í janúar en þá fer heimsmeistaramótið fram í Svíþjóð og þar ætla lærisveinar Guðmundar sér stóra hluti.
Guðmundur hefur áður þjálfað lið í þýsku 1. deildinni. Hann var við stjórnvölinn hjá Dormagen (nú Rheinland) frá 1999 til 2001.
Nú þegar Guðmundur er orðinn þjálfari Rhein-Neckar Löwen eru fjórir íslenskir þjálfarar sem stýra liðum í þýsku Bundesligunni, sterkustu deild heims. Þeir eru:
Alfreð Gíslason – Kiel
Dagur Sigurðsson – Füchse Berlin
Aron Kristjánsson – Burgdorf
Guðmundur Guðmundsson – Löwen
Í næstefstu deild eru tveir íslenskir þjálfarar. Patrekur Jóhannesson þjálfar TV Emsdetten og Aðalsteinn Eyjólfsson er við stjórnvölinn hjá Eisenach. Sjötti íslenski þjálfarinn sem starfar í Þýskalandi er Heiðmar Felixson, en hann þjálfar fjórðudeildarliðið Grossburgwedel.
Í fjögurra síðna íþróttablaði Morgunblaðsins er rætt við Guðmund Þ. Guðmundsson og Einar Þorvarðarson framkvæmdastjóra HSÍ um ráðningu Guðmundar hjá Löwen og störf hans sem landsliðsþjálfara.