Þriðja umferð í úrvalsdeild karla í handknattleik hefst í kvöld með þremur leikjum en umferðinni lýkur á laugardaginn þegar Akureyri og Fram leiða saman hesta sína fyrir norðan.
Í Kaplakrika eigast við FH og nýliðar Selfoss. FH-ingar hafa byrjað tímabilið með látum. Þeir lögðu nýliða Aftureldingar með níu marka mun í fyrstu umferðinni og léku sama leik gegn Íslands- og bikarmeisturum Hauka um síðustu helgi. Selfyssingar unnu góðan sigur á Valsmönnum í síðustu viku eftir tap á móti Fram í fyrstu umferðinni.
Í Vodafone-höllinni taka Valsmenn á móti HK-ingum. Valsmenn eru með bakið upp að vegg en þeir hafa tapað fyrstu tveimur leikjum sínum. HK steinlá fyrir Akureyri í 1. umferðinni en bætti fyrir það með því að leggja Fram að velli í síðustu viku.
Í Mosfellsbæ fá nýliðar Aftureldingar meistaralið Hauka í heimsókn. Mosfellingar hafa tapað báðum leikjum sínum, gegn FH og Akureyri, en hið unga lið sýndi þó ágæta takta í báðum leikjunum. Haukarnir vilja örugglega komast á sigurbraut eftir niðurlæginguna gegn FH en í fyrstu umferðinni unnu þeir sannfærandi sigur á Val.
Leikir kvöldsins hefjast allir klukkan 19.30.