„Það bætir ekki úr skák að geta ekki tekið Loga með til Austurríkis í þann erfiða leik sem þar bíður okkar á laugardagskvöldið. Logi stóð sig mjög vel gegn Lettum, jafnt í vörn sem sókn og þar af leiðandi er skarð fyrir skildi,“ sagði Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handknattleik karla, í gær eftir að hann varð að bíta í það súra epli að skilja Loga Geirsson eftir heima þegar íslenska landsliðið fer til Austurríkis í dag þar sem það mætir heimamönnum á morgun í undankeppni Evrópumótsins í handknattleik. Logi er meiddur í öxl.
Til að fylla skarð Loga kallaði Guðmundur á Odd Gretarsson, hornamann Akureyrar handboltafélags. Auk þess þá ákvað Guðmundur að skilja Ólaf Guðmundsson úr FH eftir heima og fara með 16 leikmenn til Austurríkis en ekki má tefla fleiri leikmönnum fram í leik.
Guðmundur sagði það vera jákvætt að flest benti til að Alexander Petersson gæti leik gegn Austurríksmönnum á laugardag. Alexander meiddist á hné á síðasta sunnudag og gat af þeim sökum ekki tekið þátt í viðureigninni við Letta í Laugardalshöllinni í fyrrakvöld. Ekki þarf að fara mörgum orðum um hversu mikill styrkur það er fyrir landsliðið verði mögulegt að tefla Alexander fram.
Rætt er við Guðmund í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag og farið yfir stöðuna fyrir leikinn mikilvæga í Austurríki á morgun.