Lærisveinar Guðmundar Guðmundssonar í Rhein-Neckar Löwen komust í kvöld á topp þýsku 1. deildarinnar í handknattleik með sigri gegn Grosswallstadt, 31:23. Hamburg getur komist í toppsætið síðar í kvöld takist liðinu að leggja Flensburg að velli.
Ólafur Stefánsson skoraði 3 mörk fyrir Rhein Neckar og Róbert Gunnarsson eitt en Guðjón Valur Sigurðsson er enn frá vegna meiðsla. Sverre Jakobsson stóð vaktina í vörn Grosswallstadt.
Alexander Petersson átti stórleik fyrir Füchse Berlin sem vann góðan útisigur á Gummersbach, 34:32, en Dagur Sigurðsson er þjálfari Berlínarliðsins sem hefur 17 stig og er tveimur stigum á eftir Rhein Neckar.
Þórir Ólafsson skoraði 4 mörk fyrir TuS N-Lübbecke sem lagði Rheinland á heimavelli, 33:22. Sigurbergur Sveinsson var markahæstur í liði Rheinland með 5 mörk en Árni Þór Sigtryggsson komst ekki á blað.
Kári Kristján Kristjánsson átti góðan leik fyrir Wetzlar sem lagði HSG Ahlen-Hamm á útivelli, 30:27. Kári skoraði 6 mörk í leiknum en Einar Hólmgeirsson lék ekki með heimamönnum vegna meiðsla.