Haukar unnu stórsigur í Kaplakrika

Ólafur Guðmundsson og samherjar hans í FH höfðu betur þegar …
Ólafur Guðmundsson og samherjar hans í FH höfðu betur þegar liðin mættust fyrr í haust. mbl.is/Ómar

Nágrannaslagur FH og Hauka í N1 deild karla í handknattleik hófst í Kaplakrika kl 19:45. Íslands- og bikarmeistarar Hauka unnu stórsigur 25:16 en þeir höfðu yfir 13:8 að loknum fyrri hálfleik. Leikurinn var sá fyrsti í 9. umferð og eru liðin nú jöfn með 10 stig í 4. - 5. sæti. Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

Markahæstir: 

FH: Ólafur Guðmundsson 4, Ásbjörn Friðriksson 4/1, Ólafur Gústafsson 3.

Haukar: Þórður Rafn Guðmundsson 8/1, Freyr Brynjarsson 5, Guðmundur Árni Ólafsson 5/1.

Varin skot: 

FH: Pálmar Pétursson 13/1 (þar af 3 aftur til mótherja).

Haukar: Birkir Ívar Guðmundsson 20/2 (þar af 4/2 aftur til mótherja).

60. mín: Leik lokið. Haukar unnu stórsigur 25:16 og voru yfir í leikhléi 13:8. 

59. mín: Staðan er 24:15 fyrir Hauka og þeir taka leikhlé. Einar Andri Einarsson annar þjálfara FH lítur greinilega á þetta sem óvirðingu og lætur Halldór Ingólfsson heyra það. 

54. mín: Staðan er 21:15 fyrir Hauka. Freyr Brynjarsson var að skora fyrir Hauka úr hraðaupphlaupi og nú eru úrslitin líklega ráðin en FH tókst að minnka muninn niður í fjögur mörk. 

50. mín: Staðan er 18:13 fyrir Hauka sem virðast aftur vera komnir með ágæt tök á leiknum. Þeir reyna að halda hraðanum niðri eins og þeir geta og spila langar sóknir. 

42. mín: Staðan er 16:12 fyrir Hauka. FH-ingar skoruðu þrjú mörk í röð og eru að hressast. Þeir eru nú manni fleiri á vellinum. Takist þeim að nýta sér það hleypa þeir spennu í leikinn.

36. mín: Staðan er 15:9 fyrir Hauka. Logi Geirsson og Hjörtur Hinriksson eru komnir inn á og Hjörtur náði að svara fyrir FH sem hafði ekki skorað í 19 mínútur.

33. mín: Staðan er 14:8 fyrir Hauka en Heimir Óli Heimisson skoraði fyrsta markið í síðari hálfleik. FH-ingar hafa ekki komið boltanum í netið hjá Haukum síðan á 17. mínútu!

30. mín: Staðan er 13:8 fyrir Hauka að loknum fyrri hálfleik. Haukarnir náðu að slíta sig frá FH-ingum undir lok fyrri hálfleiks en þá datt botninn úr leik heimamanna.  Ásbjörn Friðriksson er markahæstur hjá FH með 3 mörk en hefur klikkað á tveimur vítaskotum. Þórður Rafn Guðmundsson er markahæstur Hauka með 4 mörk. 

22. mín: Staðan er 10:8 fyrir Hauka. Birkir Ívar Guðmundsson hefur öðrum fremur lagt grunninn að þessu forskoti því hann hefur nú þegar varið tíu skot. Sverrir Garðarsson fyrrum atvinnumaður í knattspyrnu fær að spreyta sig í leikstjórnandahlutverkinu hjá FH.

17. mín: Staðan er 8:8 og leikurinn algerlega í járnum. Þórður Rafn Guðmundsson vinstri skytta Hauka hefur lyft sér þrisvar upp fyrir utan punktalínu og hamrað knöttinn upp í hornin. Frábær byrjun hjá þessum unga leikmanni. 

10. mín: Staðan er 5:4 fyrir Hauka. Þeir eru búnir að skora þrjú mörk í röð og komust þannig yfir í fyrsta skipti í leiknum. 

4. mín: Staðan er 2:2. Freyr Brynjarsson einn helst varnarmaður Hauka var að fá tveggja mínútna brottvísun fyrir að fara með hnéð í lærið á Ólafi Gústafssyni.

1. mín: Staðan er 1:0 fyrir FH. Ólafur Guðmundsson stórskytta FH-inga skoraði fyrsta mark leiksins. 

Skemmtiatriðunum er ekki nærri lokið. Nú syngja tveir söngvarar, sem undirritaður náði hvað heita, lagið „Þú hýri Hafnarfjörður“ sem kynnt var sem þjóðsöngur Hafnfirðinga. Hver einasti maður í salnum stóð á fætur að þessu tilefni.

Nú þegar tíu mínútur eru þar til flautað verður til leiks er stúkan FH megin orðin smekkfull af fólki en ennþá er talsvert pláss Haukamegin. 

Erpur Eyvindarson og félagar standa nú á parketinu og rappa fyrir mannskapinn. Það gæti hugsanlega skapað aukið pláss í stúkunni. Erpur er afskaplega diplómatískur í sinni nálgun og klæddist FH treyju í fyrri hluta atriðisins en Haukatreyju í síðari hlutanum.

Í lið FH vantar Örn Inga Bjarkason sem er meiddur og Haukar leika án Gunnars Bergs Viktorssonar eins og undanfarið. 

FH vann stórsigur 28:19 þegar liðin mættust á Ásvöllum 9. október síðastliðinn en sá leikur var einnig í deildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert