Þýsku meistararnir í handknattleik karla, Kiel, unnu áðan nauman sigur á Lübbecke á útivelli, 28:27, og komust þar með upp í þriðja sæti þýsku 1. deildarinnar í handknattleik. Sigurinn stóð glöggt því leikmenn Lübbecke voru með boltann síðustu 20 sekúndurnar og reyndu árangurslaust að jafna metin.
Þórir Ólafsson skoraði fjögur mörk fyrir Lübbecke, öll úr vítakasti, en honum brást bogalistinn úr einu þegar hálf sjötta mínúta var eftir og Kiel tveimur mörkum yfir, 26:24.
Aron Pálmarsson lék ekki mikið með Kiel að þessu sinni. Kom nokkrum sinnum inn á en staldraði stutt við í hvert skipti.
Kiel var þremur mörkum yfir í hálfleik, 16:13, og náði mest sjö marka forskoti snemma í síðari hálfleik. Virtist svo vera sem meistararnir væru að stinga af. Leikmenn Lübbecke voru á öðrum máli og skoruðu meðal annars sex mörk í röð en tókst ekki að jafna metin samt fyrr en tvær mínútur voru eftir, 27:27.
Leikmenn Kiel fóru illa að ráði sínu undir lokin. M.a. brást Cristian Sprenger bogalistinn í opnu færi í hraðaupphlaupi og þá var skot Momic Ilic 20 sekúndum fyrir leikslok nokkuð fljótfærnislegt miðað við stöðu leiksins. Það var var varið og leikmenn Lübbecke náðu sókn sem þeim tókst ekki á nýta á þeim sekúndum sem eftir voru af leiknum.
Kiel er nú með 27 stig að loknum 17 leikjum í þriðja sæti. Lübbecke er í 12. sæti með 12 stig að loknum 17 leikjum.