Okkur vantaði trú á verkefnið

Óskar Bjarni Óskarsson og Heimir Ríkarðsson ráða ráðum sínum á …
Óskar Bjarni Óskarsson og Heimir Ríkarðsson ráða ráðum sínum á Akureyri í kvöld. mbl.is/Þórir Tryggvason

 „Við vissum að við mundum lenda undir til að byrja með. Við erum í meiðslavandræðum og sóknarleikurinn var því svolítið staður eins og ég bjóst við,“ sagði Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari Vals, við mbl.is eftir tap sinna manna gegn Akureyri fyrir norðan, 28:26, í úrvalsdeild karla í handknattleik í kvöld.

„Við áttum samt ekki að vera sjö mörkum undir í hálfleik. Skotnýtingin var léleg og það var of mikið um ódýr mistök þar sem enginn steig upp. Við sýndum mikinn karakter í síðari hálfleik en það vantaði herslumuninn.“

Þrátt fyrir að liðið hafi átt erfitt uppdráttar fyrri hluta leiks var Óskar þó ekki ósáttur við leik sinna manna heilt yfir. „Vörnin var ágæt í fyrri hálfleik en við fengum bara á okkur of mikið af hraðaupphlaupum. Ég er þannig séð ánægður með varnarleikinn þrátt fyrir að auðvitað megi taka út nokkur atriði. Okkur vantaði bara trú á verkefnið og þú ferð ekki hingað norður ef þú ert ekki ákveðinn í að standa þig vel. Við hlupum ekki nógu hratt á þá og vorum hreint yfir ekki nógu ákveðnir í okkar aðgerðum.“

Kom reynslunni ríkari heim

Oddur Gretarsson, leikmaður Akureyrar, var sem kunnugt er hluti af íslenska landsliðinu á Heimsmeistaramótinu sem lauk í síðustu viku. Hann segist vera mjög ánægður með reynsluna sem svona stórmót hefur í för með sér.

„Þótt það hafi ekki mætt mikið á mér á þessu móti þá er maður klárlega reynslunni ríkari. Það var vel tekið á móti mér enda er mjög góður andi í hópnum.“

Aðspurður hvort lið erlendis frá hafi ekki verið að fylgjast með honum segir hann að svo sé. „Það eru ýmis lið sem hafa sýnt áhuga en það er ekkert komið á samningastig. Maður er auðvitað spenntur fyrir því að fara út og ef eitthvað gott tilboð kemur upp þá mun ég auðvitað skoða það, en ég mun ekki stökkva á hvað sem er," sagði Oddur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert