Heimir Örn: Skrifum sögu Akureyrar

Heimir Örn í átökum gegn Val. Ef Akureyri vinnur í …
Heimir Örn í átökum gegn Val. Ef Akureyri vinnur í kvöld mætast liðin í úrslitaleik Eimskips-bikarkeppninnar. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Heimir Örn Árnason leikstjórnandi og fyrirliði Akureyrar er fullur tilhlökkunar fyrir leikinn gegn FH í kvöld í undanúrslitum Eimskipsbikarsins í handknattleik karla. Hann segir að Akureyri þurfi að varast skytturnar hjá FH.

„Þetta verður án efa hrikalega skemmtilegur leikur. Mér líst mjög vel á hann. Við þurfum að ganga vel út í skytturnar hjá FH, þeir eru búnir að vera hrikalega heitir. Svo má náttúrulega ekki gleyma Baldvini(Þorsteinssyni) og fleirum.“

Sigurvegarinn úr þessum leik mætir Val í úrslitaleiknum en þeir unnu Fram í gær í framlengdum leik. Heimir býst einnig við löngu kvöldi fyrir norðan.

„Ég er að búa mig undir eins leik og var í gær. Það kemur mér ekki á óvart ef þetta fer í framlengingu í kvöld. Ég veit ekki af hverju en ég er eiginlega alveg viss um að þetta verði þannig leikur.“

Heimir Örn er búinn að spila marga úrslitaleikina og hefur reynsluna sem annars ungt lið Akureyrar hefur e.t.v. ekki. Hann kemur því til með að nýtast liðinu vel. „Það þarf að vera sterkur andlega og svo er heppnin einnig stór þáttur í þessu líka. Ég held samt að allir þessir 14 sem eru inná vellinum verði alveg tilbúnir, ég hef enga trú á öðru.“

Eftir að Þór og KA sameinuðust fyrir norðan í Akureyri Handboltafélag hefur liðið aldrei náð í undanúrslit og því eru leikmenn liðsins byrjaðir að skrifa söguna. Heimir vonast til að sú saga haldi áfram. „Stemmningin er hrikalega góð og við skrifum sögu Akureyrar með hverjum leiknum sem við vinnum. Við fórum í úrslit í Deildabikarnum og vonandi förum við í úrslit í bikarnum líka. Svo þurfum við að fara að taka einhvern af þessum stóru titlum.“

Ástandið á Akureyrar-liðinu er gott ef undan eru skildir Geir Guðmundsson og Hreinn Hauksson. Þeir eru meiddir og verða ekki með í kvöld. Spurður um hvernig Heimir undirbýr sig fyrir leikinn segist hann halda sömu dagskrá og fyrir aðra heimaleiki. „Ég fer og fæ mér hádegismat, síðan á fótboltaæfingu með drenginn minn og svo bara niður í höll. Ég get bara ekki beðið eftir að klukkan verði sjö.“

Akureyri hefur slegið út tvö lið úr N1-deildinni í leið sinni að undanúrslitunum. Leikurinn í kvöld sem hefst klukkan 19:00 verður annar heimaleikur Akureyrar í keppninni. Leið liðsins má sjá hér að neðan.

32-liða úrslit: HK - Akureyri, 28:29

16-liða úrslit: Akureyri - Afturelding, 30:20

8-liða úrslit: Víkingur - Akureyri, 18:34

Atli Hilmarsson þjálfari Akureyrar ræðir við sína menn.
Atli Hilmarsson þjálfari Akureyrar ræðir við sína menn. Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert